146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir afar góða ræðu og hressandi andsvör. Þetta hleypir lífi í umræðuna. Hv. þingmaður fór talsvert yfir byggðamálin. Þau hafa kannski ekki fengið mikla umræðu hér varðandi ríkisfjármálaáætlunina. Mikil gagnrýni hefur eðlilega verið á málefni er snúa að heilbrigðis- og velferðarmálum og menntamálum. Við höfum farið mjög vel yfir þau hér þótt vel geti verið að ég komi inn á þau í seinna andsvari mínu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé nauðsynlegt að vinna að heildstæðri stefnu í byggðamálum. Þar væri nauðsynlegt að horfa til aðgerða eins og að nýta t.d. námslánakerfið í tengslum við hvataaðgerðir til þess að reyna að fá fólk til sérfræðistarfa á landsbyggðinni. Við getum nefnt hjúkrunarfræðinga, lækna eða aðra sérfræðinga sem skortur er á úti á landi. Getur hv. þingmaður séð fyrir sér að það væri hluti af heildstæðri stefnu þar væri m.a. væri horft til aðgerða eins og að veita skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu til að styrkja atvinnusvæði og byggðir landsins? Er það í samræmi við það sem hv. þingmaður kallaði eftir í ræðu sinni áðan og sagði skort á? Við höfum séð þá þróun undanfarin ár að fyrirtæki og margar stofnanir hafa í mörgum tilfellum flutt starfsemi sína frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Telur hv. þingmaður jafnvel að ein leið gæti verið að vera með lægra tryggingagjald fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni til þess að reyna að snúa þeirri þróun við eða halda þá í við það sem þar er? Byrjað var að vinna að því á síðasta kjörtímabili en við höfum ekki enn fengið að sjá niðurstöður um vinnu um það efni. Mig langað bara að viðra þetta við hv. þingmann.