146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:42]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir yfirgripsmikið erindi nú í annað sinn um fjármálaáætlun. Það hefur komið fram gagnrýni úr herliði stjórnarliða að við sýnum fullkomið ábyrgðarleysi með því að koma með breytingartillögur og séum spámenn óráðsíu. Þessu vil ég algerlega mótmæla. Hv. þingmaður nefndi að þetta væru galnar hugmyndir. Það eru ekki galnar hugmyndir sem frammi eru þegar við komum með breytingartillögur sem lúta að því að bæta hag þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu, börn, aldraðir, öryrkjar, svo því sé nú svarað.

Mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann út í það sem lýtur að tekjuöflun í nefndaráliti 1. minni hluta. Ég skynjaði það sem svo í textanum að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, úr 11% í 24%, sé Vinstri grænum nokkurt umhugsunarefni, m.a. í ljósi þess að fjármálaráð taldi að við þyrftum að fara í miklu betri greiningu á þessu og skort hafi á það varðandi þessi atriði og nokkur fleiri. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða áhrif hún telji að framkvæmd þessara draga, þessara áforma, muni hafa á ferðaþjónustuna, sérstaklega á landsbyggðinni, og hvað þurfi til svo þetta gæti gengið upp.