146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er nefnilega svo að ef ég sæti í stóli fjármálaráðherra hefði ég lagt fram öðruvísi ríkisfjármálaáætlun, það er alveg ljóst. Og þá hefði ég líka betri aðgang að grunngögnum sem ég hef ekki í dag. Þess vegna er ekki ábyrgt að maður leggi það fram niðurbrotið, algerlega sundurliðað, þó að maður hafi einhverjar hugmyndir um það hvað maður vildi gera. Auðvitað þarf maður að hafa allar upplýsingar uppi á borðum.

Virðisaukaskatturinn á ferðaþjónustunni er eins og komið hefur fram í fyrsta lagi tveimur árum of seint á ferðinni í ljósi stöðunnar núna, allrar þessarar uppbyggingar og þar sem gengið styrkist og styrkist, eðlilega, þar sem hagstjórnin talar ekki við peningastefnunefnd og tekur ekki mið af þeim leiðbeiningum sem settar eru fram til að viðhalda stöðugleika. Þess vegna verðum við að fá greiningar á því hvaða áhrif þetta hefur á svæðin.

Það hefur komið fram að litlu fyrirtækin í hinum dreifðu byggðum telja sig ekki geta staðið undir hækkandi verði sem myndi fylgja hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna og þau eru enn að byggja sig upp. Það er enn mjög víða þannig að þrátt fyrir aukinn ferðamannafjölda hefur hann aukist miklu hægar en orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu. Við sjáum það bara í blöðunum núna dag eftir dag hvaða áhrif ein ákvörðun hefur á önnur sveitarfélög í því samhengi að ferðamenn komast ekki á staðina. Auðvitað þarf að fá svona sviðsmyndagreiningar. Ég var búin að eiga þá umræðu við fjármálaráðherra almennt um framkvæmdir og hann sagði að það væri mjög erfitt að gera slíkar sviðsmyndagreiningar miðað við landshluta. (Forseti hringir.) En við sem búum í hinum dreifðu byggðum vitum að þetta mun hafa gríðarleg áhrif þar.