146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er bara dapurlegt að þessi fjármálaáætlun sýni ekki meiri metnað en raun ber vitni.

Mig langar að nefna aðeins það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni varðandi jöfnun orkuverðs í landinu. Við höfum þokast aðeins áfram í þeim efnum en allt of hægt. Ég get ekki fundið því stað að verið sé að ganga til enda við að jafna þennan mikla mismun í orkuverði, hvort sem er í dreifingu á rafmagni eða húshitunarkostnaði. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé mér sammála um að það þurfi að ljúka þessu verkefni sem er bara sanngirnismál og hefur verið allt of lengi á borði ríkisstjórnar hverju sinni, en allt of hægt þokast áfram því að gífurlegur kjaramunur er á milli landshluta þar sem orkuverð á köldum svæðum er hvað hæst. Hvort hv. þingmaður sjái að það sé eitthvað verið að hreyfa við þessum málum af nokkru gagni og ljúka þeim.