146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er því miður lítið um það að finna í fyrirliggjandi fjármálaáætlun að stefnan sé að jafna orkuverð og tryggja betri dreifingu um land allt. Það er svolítið sérkennilegt í ljósi þess að nú hefur aðalflokkurinn í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokkurinn, haft á stefnuskrá sinni frá upphafi að vera, ja, ímyndin er að hann sé flokkur atvinnulífsins, að það sé eitt af meginmarkmiðum þess flokks að tryggja öflugt atvinnulíf um land allt. En það að dreifing orku sé ekki örugg um land allt eins og staðan er núna, og annað, maður sér það t.d. á Norðurlandi eystra, og líka á Suðurnesjum varðandi línu 2, nú erum við bara með eina línu þangað, Suðurnesjalínu 1, að þessi vöntun á orku er farin að há uppbyggingu atvinnulífsins á þessum svæðum verulega. (Forseti hringir.) Það er í raun ekki pláss fyrir fleiri stór fyrirtæki í bili. Það eru mjög miklar hömlur á uppbyggingu atvinnulífsins af þeim sökum og ég sé í rauninni ekkert um þetta í fjármálaáætlun.