146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og vil rifja það upp að þegar þessi ríkisstjórn, núverandi hægri stjórn, varð til heyrðust raddir um að samsetning á ráðherraliðinu væri alls ekki nógu góð, þ.e. þeir væru allir frá suðvesturhorni landsins og okkur, sem brennum fyrir byggðamálunum, rann kalt vatn milli skinns og hörunds og höfðum miklar áhyggjur af því að ríkisstjórnin myndi ekki leggja nægilega mikla áherslu á þau mál sem brenna á okkur sem höfum landsbyggðarmálin að leiðarljósi, eins og t.d. byggðamálin. Gott að hv. þingmaður spyr. Það væri áhugavert að heyra það frá hæstv. ráðherra byggðamála, ef hann væri í húsinu, hvar t.d. byggðaáætlunin er núna í kerfinu.

Það er svolítið merkilegt, talandi um núverandi ríkisstjórn, að þegar maður les meirihlutaálit fjárlaganefndar, þar eru einmitt ágætis landsbyggðarmenn í meiri hlutanum sem hafa áhuga á byggðamálum eins og ég, endurspeglast þar allt önnur áhersla í rauninni miðað við framlagða fjármálaáætlun. Ráðherraliðið hefur ekki áhuga á byggðamálunum. Kannski ráðherra byggðamála gæti uppfrætt okkur hér á eftir ef hann kæmi nú til þings. En meiri hluti fjárlaganefndar hefur áhuga á þeim málaflokki. Það væri ágætt ef þetta góða fólk myndi nú tala saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu á einhverjum tímapunkti í þessari umræðu.