146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Gott að hann nefnir ferðaþjónustuna vegna þess að í áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar, Framsóknarflokksins, koma fram ákveðnar hugmyndir um dreifingu ferðamanna og uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Við höfum talað fyrir svokölluðu komugjaldi eða náttúrugjaldi eða hvað fólk vill kalla það. Slíkt gjald væri hægt að útfæra með þeim hætti að við gætum stýrt dreifingu ferðamanna betur en nú er um landið, t.d. með því að hafa lægri komugjöld á flugvöllum eins og Egilsstöðum. Þar að auki vil ég benda á það sem ekki hefur farið hátt í umræðunni um virðisaukaskattinn og breytingarnar sem ríkisstjórnin vill gera á því kerfi að komugjaldið gæti skilað mjög sambærilegum tekjum til ríkissjóðs eins og þegar báðar breytingarnar, sem sé lækkun efra þrepsins í virðisaukaskattinum og hækkun á gistinguna, eru komnar til framkvæmda síðar meir. Með komugjaldinu sköpum við bæði góðan tekjustofn (Forseti hringir.) og náum að dreifa ferðamönnum betur um landið. Sláum tvær flugur í einu höggi og gerum þetta.