146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:48]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara í grófum dráttum yfir umsögn mína sem kom að ósk fjárlaganefndar. Ég sit sem fulltrúi Pírata í atvinnuveganefnd í augnablikinu. Atvinnuveganefnd fékk beiðni frá fjárlaganefnd um að veita umsögn um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Farið hefur verið yfir helstu málaflokka sem heyra undir nefndina, en þó með þeim fyrirvara að vegna þess stutta tíma sem gefinn var til umfjöllunar gafst ekki tækifæri til að fjalla með greinargóðum hætti um áætlun sem þó á að gilda til ársins 2022. Það er mjög ámælisvert að við höfum ekki fengið plaggið fyrr til umræðu í nefndinni þar sem það var enginn sem kom og ræddi orkumál við atvinnuveganefnd.

Við umfjöllun um málið fékk nefndin til sín á fund Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og aðstoðarmann hennar, Ólaf Reyni Guðmundsson. Þá komu eftirtaldir starfsmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis fyrir nefndina: Kristján Skarphéðinsson og Guðrún Gísladóttir, Ólafur Einar Guðmundsson og Sigrún Brynja Einarsdóttir og svo má lengi telja. Svo kom Rannís líka.

Í fyrsta málaflokki eru rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Nýsköpun og þekkingargreinum er sniðinn mjög þröngur stakkur á komandi árum. Áætlunin gerir ráð fyrir tæplega 2,6 milljörðum kr. niðurskurði í málaflokknum á tímabilinu. Ekki verður séð á grundvelli áætlunarinnar og annarra fyrirliggjandi gagna hvernig hægt verði að fylgja markmiðasetningu á málefnasviðinu eftir. Umfjöllun áætlunarinnar er á þá leið að fjölga störfum í þekkingargreinunum, það sé eitt og sér sé markmið. Hið sama gildi um aukna framleiðni á grundvelli nýsköpunar. Erfitt er að sjá hvernig stuðla má að framleiðniaukningu á grundvelli aukinnar þekkingar þegar skorið er niður í málaflokki þekkingar. Verður því að telja markmið áætlunarinnar óraunhæf. Þó er ætlunin að treysta leikni stofnana, fyrirtækja og skóla í að ganga á náðir alþjóðlegra sjóða. Þannig verði hægt að fjármagna framþróun og greiða fyrir tækniþróun á Íslandi. Það finnst mér magnað.

Í ferðaþjónustunni ríkir nú talsverð óöld í málefnum ferðamanna. Gríðarleg óánægja kom fram í máli gesta um fyrirhugaða breytingu á virðisaukaskatti og raunar var fátt annað rætt á þeim fundi en hækkunin á virðisaukaskatti. Áætlunin gerir einnig ráð fyrir innspýtingu fjármuna á fyrstu tveimur árum tímabilsins en síðan verða fjárheimildir lækkaðar. Þó að það sé vissulega þróun í rétta átt að lögfesta réttláta gjaldtöku af iðnaðinum skýtur skökku við að á sama tíma séu fjárheimildir til greinarinnar skornar niður. Ef áætlunin hlýtur samþykki óbreytt er fyrirséð að stærsti vaxtarsproti íslensks atvinnulífs verði ekki færður til þess horfs sem fýsilegt er að viðhalda. Skapar það mikla áhættu til framtíðar á Íslandi að málaflokkur sem er jafn stór og þessi sé ekki tekinn föstum tökum. Auknum tekjum af hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna ætti að verja til að treysta grunn hennar og stjórnun.

Í orkumálum. Ég var nú reyndar búinn að koma örlítið inn á þau. En ráðherrann kom á fund atvinnuveganefndar og gerði grein fyrir málaflokknum. Engar stofnanir eða hagsmunaaðilar komu þar að borði að undanskildum fulltrúa Umhverfisstofnunar sem kom lauslega inn á orkuskiptaáætlun og þá sérstaklega landtengingu skipa og þess háttar. Er það miður þar sem getið er um fjölmörg stór og viðamikil verkefni í framangreindri áætlun. Miðað við fjárframlög í fyrirliggjandi fjármálaáætlun mun ekkert þeirra ná fram að ganga. Málaflokkurinn er því undirfjármagnaður og vanræktur. Íslensk þjóð mun þannig eignast nokkra fermetra af nýjum greiningum og skýrslum sem síðan verða pappírslóði á vel völdum stað. Í þessum málaflokki er verið að ræða þrífösun rafmagns. Það er ævagamalt verkefni sem staðið hefur yfir í svo marga áratugi að það er alveg magnað að við skulum enn þá vera að tala um það, að ekki sé hægt að fá þriggja fasa rafmagn í flestum bæjum landsins.

Varðandi markaðseftirlit og neytendamál. Fjármálaáætlun lýsir auknu gagnsæi, virkri samkeppni og heilbrigðum viðskiptaháttum sem grunnstefnu til framtíðar í þessu málaflokki. Kjörið hefði verið að núverandi ríkisstjórn sýndi gott fordæmi í þessum efnum og gætti þess að sú fjármálaáætlun sem hér er til umfjöllunar byggði á sömu gildum, sérstaklega varðandi markmið um að meta þekkingu stjórnenda fyrirtækja á meginreglum samkeppnislaga. Miðað við hvernig olíufélögum hefur verið stýrt hér á landi virðist vera töluverð þekking á samkeppnislögum og hvernig fara á á svig við þau, þannig að ég get ekki séð að þetta markmið sé sérstaklega gott.

Í landbúnaði. Nýir undirritaðir búvörusamningar fela í sér samdrátt til málaflokksins. Þó eru fjölmörg verkefni innan greinarinnar í dag sem vert er að styðja. Þar má sérstaklega nefna þróun gagnagrunns sem ætlað er að tryggja rekjanleika afurða. Það er miður að slíkt sé ekki gert í dag. Það er ömurlegt ástand að geta ekki markað sér sérstöðu með bústofni sínum því að þá geta bændur ekki keppt sín á milli um að vera með t.d. fjörubeitt lamb eða bragðbætt lamb eða bara gefið kindunum sínum bjór til að bragðbæta þær. En það er ekkert hægt því að þegar dilkarnir fara í slátrun koma þeir til baka og veit maður ekki einu sinni hvort kjötið sem maður setti í slátrun kjöt er frá manni sjálfum. En þeir mega eiga það að þetta er gott markmið.

Í sjávarútvegi- og fiskeldi. Undirstofnanir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis komu á fund atvinnuveganefndar Alþingis í þeim tilgangi að upplýsa nefndarmenn um umsagnarferli atvinnuveganefndar. Í samtali við fulltrúa stofnananna kom fram að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við þær vegna málsins. Ljóst er að kostnaðargreiningar verkefna lágu fyrir innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis áður en fjármálaáætlun var dreift sem þingskjali. Ljóst er því að haldbærum gögnum og tölum var vísvitandi haldið utan áætlunarinnar. Jafnframt kom fram að þó svo að einstaka stofnun fengi í sinn hlut allt svigrúm ráðherra dygði það ekki fyrir fjármögnun þeirra verkefna sem nú liggja fyrir. Verður því að telja ljóst að verkefnalisti sá sem kynntur er í fjármálaáætlun hefur jafn mikið vægi og kosningaloforð fyrir kosningar.

Virðulegi forseti. Hér lýkur umsögn minni sem skrifuð var að beiðni fjárlaganefndar. Það hefði mögulega verið hægt að hafa fleiri orð um þessi málefnasvið en kaldur veruleikinn er sá að svo lítið kjöt er á beinunum í fjármálaáætluninni að erfitt getur reynst að koma með haldbæra gagnrýni á hana, rétt eins og það er þrautin þyngri að koma auga á ósýnilegan mann. Fjármálaáætlun í núverandi mynd er ógagnsæ, illa fram sett og hefur jafn mikil tengsl við raunveruleikann og stefnuskrá stjórnmálaflokka. Þó er ýmislegt utan míns málefnasviðs.

Á bls. 278, um háskólastig, markmið I, segir, með leyfi forseta:

„Bætt námsframvinda nemenda í háskólum. Bætt námsframvinda dregur úr skuldsetningu nemenda og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna í menntakerfinu …“

Planið er að setja eitthvert markmið og spara fyrir nemendur í háskólunum, þ.e. ef maður styttir tíma í skóla og fær lægri námslán er það gott fyrir nemendur. En það er aldrei tekið tillit til þess að mögulega eigi einhverjir nemendur í háskólanum erfitt með að vera innan þessa staðals. Í fyrsta lagi er tekið fram í fjármálaáætlun að námshraði fólks sé eitthvað sem verði að bæta og að jafnframt beri að verðlauna þá sem geti haldið áfram á eðlilegum námshraða, þ.e. að styrkja þá sem eru á eðlilegum námshraða en ekki þá sem eru það ekki. — En að refsa fjölskyldufólki sem stundar nám eftir bestu getu. Jafnframt er verið að mismuna fólki sem á við námserfiðleika að stríða. Það þýðir í einni setningu: Hyglum þeim sterku og skítt með hina.

Um flugsamgöngur er nánast ekkert rætt í fjármálaáætlun. Þó hefur borið á umræðu um að hugsanlega skuli selja þá hluta Leifsstöðvar til einkavæðingar sem gefa af sér einhverjar tekjur. Ég hef lesið greinar þess efnis að mikil áhætta fylgi því að reka flughöfn og því sé það óæskilegt með öllu að ríkið standi í slíkum rekstri. Ég verð að spyrja: Er þessi hugmynd einungis hugðarefni örfárra stjórnarliða eða býr meira að baki? Ég sé ekki að þessum tekjum sé ráðstafað í fjármálaáætlun eða nein markmið þess efnis. Leifsstöð og framkvæmdir þar í kring hafa í áratugi dregið til sín alla fjármuni í flugsamgöngum á landinu. Því verð ég að gagnrýna allar hreyfingar í þá átt að ríkið hætti rekstri hennar.

Í heilbrigðismálum verð ég að fá að vitna í umsögn hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar í nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar. Það varðar sjúkraflutninga. Með leyfi forseta:

„Enginn samningur er lengur í gildi um sjúkraflutninga í landinu. Samningar við Rauða krossinn á Íslandi um rekstur og starfsemi sjúkrabifreiða f.h. heilbrigðisráðuneytis féll úr gildi fyrir tveimur árum. Ekki hefur tekist að semja að nýju þrátt fyrir umleitanir RKÍ sem á og starfrækir bifreiðarnar og búnað þeirra. Ráðuneyti hefur ekki gefið upp hvort samið verður við sömu aðila að nýju, hvort það taki þjónustuna til sín eða að þjónustan verði boðin út til einkaaðila. Samningurinn er vanáætlaður vegna aukins kostnaðar við þjónustuna sem felst m.a. í betur búnum bifreiðum.“

Hvernig má það vera að svo mikilvægur hlekkur í starfsemi heilbrigðiskerfisins sé utan samninga? Þetta eitt og sér er lýsandi dæmi um hvernig komið er fyrir okkur í heilbrigðiskerfinu. Ég sé ekki að markmið þess efnis að eigi við um Rauða krossinn. Því mætti ætla að engar slíkar áætlanir og kostnaður vegna þeirra sé reiknað inn í heilbrigðismál. Þó má fagna því að áætlunin taki til skoðunar sjúkraflutninga í lofti og á landi. Ég get séð fyrir mér að þær áætlanir rími vel við þyrlukaup. Þess má til gamans geta að sjúkraflutningar í Noregi fara fram í þyrlum og þar sem þyrlukaup eru hugsanlega á döfinni væri kannski ráð að hugsa til Noregs hvað þetta varðar.

Í málaflokkinn almanna- og réttaröryggi er áætluð um 4 milljarða króna viðbót. Gallinn er nú samt sá að tveir stórir málaflokkar þar undir eru lögregla annars vegar og Landhelgisgæsla hins vegar. Ekki er hægt að ráða fram úr hvert þessir peningar eiga fara en lögreglan hefur ekki fengið bót á launamálum sínum og er það til skammar. Fjöldi lögreglumanna hefur staðið í stað í launum frá 2011. Það er fyrirséð á tímabilinu að launahækkanir verði. Jafnframt er í löggæsluáætlun talað um að uppsöfnuð þörf fyrir fleiri lögreglumenn sé töluverð. Landhelgisgæslunni er lofaður nýr þyrlufloti en ekki kemur fram hverjir eiga að manna hann. Hins vegar er öllum ljóst að þeir fjármunir sem lofað er til málaflokksins duga ekki einu sinni fyrir einni þyrlu, hvað þá þremur. Og fyrst við ræðum þyrlur: Nú erum við með leigusamning um björgunarþyrlu sem ekki er hægt að nota til björgunarstarfa vegna þess að hún er vanbúin. Hvers vegna er það? Sú þyrla lítur reyndar ágætlega út í bókhaldi um flughæfar þyrlur en lítið annað gagn gerir hún. Það er heldur ekkert sérstakt markmið að Landhelgisgæslan kaupi eldsneyti á Íslandi, en eins og fram hefur komið hefur Gæslan séð sér sóknarfæri í því að sækja eldsneyti til Færeyja. Kannski er kominn tími til þess að ríkisstjórn Ísland semji um olíukaup hjá Costco.