146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Ingiberg Guðmundssyni fyrir sína ágætu ræðu. Hann tæpti á því að það hefði verið stuttur tími til undirbúnings þessarar fjármálaáætlunar og nefndarálita til kynningar fyrir þessa umræðu. Telur hann kannski að þetta hafi komið niður á gæðum þeirrar umræðu sem við eigum nú í?

Hann nefndi sjúkraflutningana sem við höfum auðvitað áhyggjur af. Það virðist sem svo að hæstv. ráðuneyti okkar sé farið að hvarfla huganum að öðru fyrirkomulagi en því farsæla samstarfi sem gilt hefur í 60 ár við Rauða krossinn og semja við aðra aðila um það. Hann nefndi líka þyrluflugið. Hefur hv. þingmaður hugmyndir um að við ættum að fara í meira mæli í loftið með sjúkraflutninga? (Forseti hringir.) Landhelgisgæslan hefur annast það í miklum mæli en sú endurnýjun sem fram undan er í þyrlum hentar kannski ekki sjúkraflugi beinlínis.