146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:43]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir mjög fróðlega og áhugaverða ræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann örlítið út í það sem hann ræddi. Hann ræddi mikið um ógagnsæi sem felst í þessari ríkisfjármálaáætlun sem við ræðum hér og þá óljósu mælikvarða sem liggja að baki fjármálaáætluninni og jafnvel þeirri fjármálastefnu sem var samþykkt hér áður en þessi ríkisfjármálaáætlun kom til umræðu.

Hann ræddi ógagnsæi sem er í umræddri ríkisfjármálaáætlun og hversu erfitt er að bera saman þróun útgjalda, þ.e. eftirlitshlutverk Alþingis verður mun veikara þegar við höfum ekki þennan samanburð eða þurfum að leggjast í mjög mikla vinnu við það að finna út hvort raunaukning sé til málaflokkanna eða ekki.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvernig og hvort opinber og tölvutækur gagnagrunnur gæti hjálpað til við að auka gagnsæið eða hvort þetta væri þá bara til aukins gagnsæis fyrir almenning til að fylgjast með hvernig og hvaða forsendur liggja að baki því sem við erum að ákveða í vinnunni. Ég spyr af því ég skil ekki alveg öll þessi tækniatriði sem liggja að baki og hvernig við gætum kannski nýtt tæknina og tölulegar upplýsingar til að vinna að þessu. Mig langar að spyrja hann út í það.