146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi hérna nokkra óljósa mælikvarða, eins og t.d. fjölda skáta eða skráðra aðila í KFUM og KFUK. Ég veit ekki alveg hvaða mælikvarði er á það hvort verkefnið tókst eða ekki í því tilviki og ýmsum öðrum, en ekki er sami mælikvarði á öllum verkefnum að sjálfsögðu. Mörg þeirra voru með mælikvarða sem ég skildi ekki að væri einhvers konar vel heppnuð verkefni, ef þeir mælikvarðar næðust.

Gagnagrunnur sem safnar saman þeim upplýsingum sem við búum til jafnóðum, eftir því sem maður setur í ný fjárlög og ríkisreikninga og því um líkt, hjálpar okkur í eftirlitshlutverkinu af því að þegar við spyrjum: Hvað erum við að gera núna, er eitthvað sem getur sagt okkur hvernig hann hefur verið áður? hjálpar til við að svara spurningum um hvernig við höldum áfram. Ef við ætlum að taka ákvörðun um eina átt þá getum við spurt: Hefur það verið gert áður og í svipuðum aðstæðum? Og hvort það sé góð ákvörðun eða ekki.

Einnig er eftirlitshlutverkið með tilliti til gestakoma mjög áhugavert og sá tími sem við fáum með gestum. Mér líður oft, eins og ég lýsti áðan, eins og þingmönnum sé bara skipað í sæti inni í nefnd og svo koma gestir; þeir búnir og farnir og svo koma næstu gestir, búnir og farnir og maður nær ekki að fá samtalið við hagaðila og fagaðila um það hvernig í raun og veru er í pottinn búið. Það þarf rosalega djúp og löng samtöl oft sem við náum aldrei fyrir nefndinni. Þannig finnst mér verið að skemma fyrir eftirlitshlutverki þingsins (Forseti hringir.) almennt þó að það tengist ekki nákvæmlega fjármálaáætluninni.