146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að halda áfram að ræða skort á gagnsæi varðandi fjármálaáætlunina, eða ríkisfjármálaáætlunina. Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns áðan er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði víða blandað saman og í einhverjum tilvikum hluta af launakostnaðinum sem er í dag en ekki til framtíðar. Þar sem er svona mikið ógagnsæi, og það var ég mjög vel vör við í vinnu hv. velferðarnefndar, var erfitt fyrir stofnanirnar, og umsagnaraðila, að átta sig á hvað þær væru í rauninni að fá mikið fjármagn til að efla starfsemi sína eða halda henni gangandi nema með mjög mikilli greiningarvinnu og fá mjög færa einstaklinga til að finna nákvæmlega út hvað það yrði. Eins og fram kemur í ríkisfjármálaáætlun er í raun 23% aukning til sjúkrahúsþjónustu, en þegar umsagnaraðilar voru búnir að kafa ofan í þetta með mjög mikilli vinnu kom í ljós að það voru bara 338 milljarðar sem aukningin náði til, sem er í rauninni (Forseti hringir.) talsvert undir því sem ríkisfjármálaáætlunin fjallar um. (Forseti hringir.) Maður veltir fyrir sér hvort þurfi ekki (Forseti hringir.) í framhaldi að bæta þessi vinnubrögð, aðgreina þennan kostnað.