146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki gott að vera með fjármálaáætlun sem er ekki skýr um það hvort eigi að draga úr eða auka stuðning til barnafólks. Öll merki eru um það að það eigi að halda áfram að skerða barnabætur. En ég vil spyrja áfram um það sem snertir ungt fólk eins og Fæðingarorlofssjóð. Hlutur hans í tryggingagjaldinu var skertur árið 2014 úr 1,28% í 0,65%. Það virðist ekki vera að skattkerfið sé nýtt í kjarajöfnun. Er það sami skilningur hjá hv. þingmanni? Getur hann lesið út úr fjármálaáætlun til fimm ára að stuðningur til ungs fólks í gegnum húsnæðiskerfið, hvort sem það er stuðningur við byggingu leiguíbúða eða stuðningur við að eignast íbúðir — þá er ég að tala um fólk sem hefur ekki mikla fjármuni milli handanna — aukist með einhverjum hætti?