146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forgangsröðunin er dálítið undarleg í þessum fjölskyldumálum. Það er verið að hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs en á sama tíma er ekki gert endilega ráð fyrir því að hækkunin uppfærist með verðlagi. Þegar upp er staðið árið 2020 þá getur verið að það sé engin hækkun að raunvirði þegar hækkunin á að gerast, í 500–600 þús. kr. Það var eitt af þeim atriðum sem var dregið út. Margt af hinu er enn frekar ósýnilegt.

Nú er skortur á íbúðum og þá sérstaklega á suðvesturhorninu. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir 1.800 almennum íbúðum á árunum 2018–2021. Það er þörf á uppbyggingu fyrir 2.000 íbúðir á ári bara til að halda í við þróun mannfjölda. Skýrsla eða greining Þjóðskrár sýndi fram á að það vantaði jafnvel allt að 8.000 íbúðir. Nú veit maður ekki einu sinni hvernig þessar 1.800 almennu íbúðir verða, hvar á að byggja þær og hversu dýrar þær verða í rauninni, á hversu dýru byggingarlandi og því um líkt. Það er (Forseti hringir.) mörgu ósvarað um það hvernig við ætlum að leysa húsnæðisvandann og flest af því er í meiri vafa heldur en ekki.