146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar sem var ljómandi fín. Ég átta mig á því að þingmaðurinn er hér inni sem varamaður og þetta er nú ekkert smá yfirgripsmikið að reyna að fara í gegnum. Mér fannst gott að heyra þegar hún fór yfir það hverjir eigi að hafa yfirsýnina, einmitt til að leiða okkur áfram í vinnunni, sérstaklega í nefndunum. Til dæmis eins og landshlutasveitarfélögin sem eiga að hafa yfirsýn yfir sín sveitarfélög og vita hvort jafnræðis sé gætt eða hvort verkefni sem þau telja að þurfi að fara í rúmist innan áætlunarinnar o.s.frv. Það er kannski akkúrat það sem maður er að kalla eftir.

Það að svona margir séu í umræðunni núna finnst mér skemmtilegt. Frá því ég kom fyrst inn á þing sem varamaður 2004 og byrjaði að hlusta á fjárlagaumræðu hefur það alltaf verið þannig að örfáir aðilar eru úr fjárlaganefnd og það bara þurrkast alltaf úr salnum, nota bene, það eru nú ekki mjög margir hér inni núna. Ég vona að á eftir þegar næsti ræðumaður fer í stól, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, komi þeir félagar Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson æstir upp því að þeir hafa kvartað yfir að fá ekki pláss í andsvörum vegna stjórnarandstöðuþingmanna.

En hvað um það. Mig langar að spyrja þingmanninn um tekjuskiptingu (Gripið fram í.) ríkis og sveitarfélaga því að hún kom aðeins inn á hana. Hvaða leiðir sér hún helst fyrir sér að gætu verið skynsamlegar í því markmiði? Við þekkjum jú báðar að mikil þörf er á að finna einhverja leið út úr því.

Hv. þingmaður var í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta kjörtímabili og þekkir þau mál mjög vel. Niðurstaðan er sú samkvæmt umsögnum lögreglustjóranna bæði á Suðurlandi og Norðurlandi að fækka þurfi um tíu manns. Það þarf líka að gera það sama hjá sýslumönnunum, fækka eða loka. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hver er staðan, af því að við erum nú í sama kjördæmi, í hennar hluta, þ.e. fyrir austan? Hvernig heldur hv. þingmaður að þetta komi við það svæði sérstaklega?