146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Ég byrja á umræðunni um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég held að það skipti miklu máli að gott samtal sé þar á milli. Það litla sem ég hef getað skoðað sýnist mér að það hafi skort upp á núna. Vonandi verður bætt úr því vegna þess að það skiptir okkur öll miklu máli að það samtal slípist og komist í markvisst ferli. Það eru alla vega nokkur atriði sem ég hef velt fyrir mér sem myndu skipta miklu máli fyrir sveitarfélögin, það er t.d. að gistináttagjaldið, eða það sem hefur verið kallað, ef ég sletti ensku, „city tax“, færðist alfarið til sveitarfélaga. Ég held að það gæti skilað því að innheimtan yrði miklu skilvirkari þar sem eftirlitið væri í nærsamfélaginu þar með, t.d. með gististöðunum. Það myndi skila meiri tekjum og jafnræði og skilvirkni. Og auðvitað nýtast þá sveitarfélögunum til uppbyggingar tengdri ferðaþjónustu.

Þá held ég að það geti skipt mörg sveitarfélög máli að hægt verði að deila útsvari, heimilt verði að deila því milli sveitarfélaga. Þetta á einkum við þar sem ferðaþjónustan er enn þá tímabundin atvinnugrein og bara sinnt hluta úr ári. Þá eru jafnvel allar tekjur af ferðaþjónustunni að fara út úr sveitarfélögunum vegna þess að ekkert útsvar skilar sér af þeim sem vinna á hótelum eða í annarri ferðaþjónustu í sveitarfélögunum.

Lögreglumennirnir og sýslumennirnir verða að bíða síðara andsvars.