146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:31]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir ræðuna. Hún kom víða við, m.a. um innviði. Einn af innviðunum eru jú orkumál. Ég var að reyna að glöggva mig á orkumálum í þessari áætlun. Þetta er nokkuð yfirgripsmikið og markmiðin góð. En hérna skiptist þetta í virðiskeðju, orkuöflun, flutning, dreifingu, sölu og markaðssetningu og arðsemi. Ég hjó eftir því í morgun að þingmaðurinn var í störfum þingsins og talaði um raforkumál, flutning raforku út á land. Nú erum við með rammaáætlun í virkjunarmálum. Þetta er rammaáætlun líka. Þetta eru margra ára vandræði. Ég var hér á síðasta kjörtímabili nokkrum sinnum inni sem varaþingmaður og þá var verið að ræða raforkuflutningsmál. Mig langar að spyrja þingmanninn: Hvar er flöskuhálsinn í þessari keðju og hvað er til ráða?