146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni útskýringarnar á þessu. Og einnig að nefna máltækni og það metnaðarleysi sem við höfum haft á. Það var þó þannig í þeirri tillögu sem hv. þingmaður nefndi, svona afmælisgjöf til þjóðarinnar sem þingið samþykkti hérna mótatkvæðalaust, var náttúrugripasafn en það var líka fjallað um máltækni. Ég og fyrrverandi menntamálaráðherra vorum mjög áfram um það að setja þar eitthvað inn, því að þarna er auðvitað alveg lykilatriði að við töpum ekki slagnum við enskuna. Ég hef haft verulegar áhyggjur af þessu á síðustu árum. Birtingarmyndin er náttúrlega sú sem við erum að sjá í dag þegar gamalgróin íslensk fyrirtæki, sem áfram á að reka á Íslandi, skipta allt í einu um nafn og heita einhverju ensku nafni til þess að túristarnir fari ekki villtir í frumskógi þess að rata upp í flugvélar. (Gripið fram í.) Ég hélt reyndar að það væri … ferðamenn, hv. þingmaður, takk fyrir ábendinguna. Þetta er einmitt hættan. Við erum sífellt í auknum mæli að taka upp enska tungu eða erlenda.

En varðandi Vísinda- og tækniráð er rétt að árið 2013 þegar ríkisstjórnin á síðasta kjörtímabili kom að, þá urðum við að skera dálítið grimmilega niður. Að okkar mati var ýmislegt dálítið vanfjármagnað. Hugmyndirnar voru hins vegar góðar og þegar betur áraði, strax á árinu 2014, settum við inn mjög metnaðarfulla uppbyggingu í rannsóknasjóðunum. Það vekur athygli mína þegar við sjáum þessa fjármálaáætlun að það er engin áætlun. Það er lítils háttar hækkun, hún er ekki mikil, meira að segja á hluti af peningunum að fara í skoðun. Og auðvitað er það svona ásýnd þess sem menn segja, að forsætisráðherra sem áður hefur verið (Forseti hringir.) í forsæti fyrir Vísinda- og tækniráði er þar ekki lengur, þá eru menn bara í raun og veru að viðurkenna: Já, við ætlum að vera metnaðarlausir í mennta- nýsköpunar- og rannsóknarmálum og það eru þingmenn stjórnarmeirihlutans sem ætla að greiða atkvæði (Forseti hringir.) með tillögu sem þeir þó í orði gagnrýna daginn út og daginn inn en þora ekki að koma fram með breytingartillögu.