146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru nokkuð góðar spurningar. Það mætti kannski byrja á því að lýsa aðeins greiningunni. Það er rétt að fram kom hjá fjármálaráði að það er vandamál að við skulum byggja allar greiningar á hagkerfinu á einu líkani, þ.e. QMM-líkaninu sem Seðlabankinn hefur þróað. Fjármálaráð benti á að kerfisleg áhætta stafaði af því að allir greiningaraðilar styddust við sama líkan. Nú er ég búinn að vera að leika mér að því í smátíma á kvöldin að búa til forrit sem túlkar þetta QMM-líkan þannig að við getum alla vega reynt að finna út hvort við getum ekki gert eitthvað betra við það. Það er kannski annað mál og efni í aðra ræðu. En QMM-líkanið hefur út af fyrir sig afskaplega takmarkað spágildi og er óheppilegt til að spá fyrir um áhrif skattbreytinga, breytingar á ríkisútgjöldum og önnur atriði sem snúa að ríkisfjármálum vegna þess að þarna er fyrst og fremst greining á efnahag landsins en ekki á ríkisrekstrinum.

En svo ég svari spurningu hv. þingmanns aðeins nánar þá er mjög gott að fjármálaráð sé komið til starfa. Það þarf að passa upp á að það hafi ákveðið sjálfstæði í störfum sínum. En við þurfum að endurreisa Þjóðhagsstofnun eða styrkja Hagstofuna þannig að hún geti sinnt þessu hlutverki, ekki bara að safna hagtölum heldur einnig að gera spálíkön og greina ástandið. Ef við höfum ekki sjálfstæða aðila sem geta sinnt þessu hlutverki þá munum við reiða okkur helst til mikið á greiningardeildir bankanna eins og við gerðum hér fyrir hrun, en það endaði nú ekkert rosalega vel. Þjóðhagsstofnun eða þess konar stofnun er algjört lykilatriði í þessu efni og jafnvel mætti ganga lengra. Ég er mikill áhugamaður um að við reynum að gera (Forseti hringir.) víðtækari spár fyrir framtíðina, ekki bara til eins eða tveggja ára (Forseti hringir.) í senn heldur til tíu ára.