146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er vissulega þannig að við höfum verið mjög jákvæð fyrir hugmyndum um komugjöld. Við höfum jafnvel viljað lækka endurgreiðslu vegna „tax free“, sem gæti sparað okkur allt að 1 milljarði á ári. Við erum með eitt hæsta endurgreiðsluhlutfallið vegna „tax free“ sem finnst í Evrópu, ég held það sé 15% núna, og mætti jafnvel lækka hana um helming, niður í 7%, án þess að við værum of mikið undir meðaltali. En þessi virðisaukaskattsbreyting — ég man í augnablikinu ekki nákvæmlega hvað stendur í stefnuskrá okkar um hana. Spurningin kom mér á óvart og ég náði ekki að fletta því upp. Ég hef persónulega þá sýn að hún gæti verið til góðs, en allar svona breytingar verða þó að vera byggðar á góðri greiningu.

Ég er með graf í umsögn minni um þetta mál sem sýnir hvernig breytingar hafa átt sér stað innan EES í undirgeirum ferðaþjónustunnar á undanförnum árum. Það sýnir að búin er að vera mikil aukning í framleiðsluvirði á sumum stöðum en það hefur staðið í stað eða minnkað annars staðar. Það gefur mér tilefni, ásamt allri reynslunni frá Danmörku og víðar að, til þess að halda að það sé kannski ekki rosalega skynsamlegt að gera það á þessum tímapunkti, jafnvel þótt maður sé almennt hlynntur breytingunni. Kannski er hægt að skoða það einhvern tímann seinna.

Ég er sammála því að útflutningsgreinar lúti aðeins öðrum lögmálum, en alla vega eins og staðan er í dag held ég að það sé hreinlega ekki á hættandi að hækka virðisaukaskatt (Forseti hringir.) á ferðaþjónustuna.