146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:30]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Kannski er ágætt að ég svari þessu með ákveðinni sögu og þetta er nýleg saga. Það er nefnilega þannig að á bls. 54 í fjármálaáætluninni, ef mig misminnir ekki, er sagt að það sé 9% hækkun á launakostnaði yfir tímabilið. Meira að segja í sama kafla er sagt að allar tölur í fjármálaáætluninni séu á raunvirði, núvirtar eða gangi út frá gengi 2017 og svo verði það bara lagað. Út frá því myndi maður ætla og gefa sér að þegar talað er um 8,8% hækkun til sjúkrahúsþjónustu þá þýði það 8,8% hækkun, svo 9% aukalaunakostnaður, þá sé 0,2% lækkun á móti. Það var bara eðlilegt að gefa okkur þetta vegna þess að þetta er það sem stóð. Svo kom í ljós þegar nánar var að gáð að einhvers staðar var eitthvað falið inni á milli, þ.e. fram kemur að þetta sé bara hluti af núvirðingunni sem er tekið tillit til. Þannig að þessi 9% tala sem kemur fram á þennan óskýra hátt gerir að verkum að við erum búin að hafa rangt fyrir okkur fyrir slysni í marga daga. Þetta var ekki leiðrétt fyrr en í fyrradag. Þetta er bara eitt dæmi um það hve ótrúlega illa fer þegar gögn eru illa fram sett og illa unnin. Við getum eiginlega í rauninni þakkað fyrir að ekki hafi orðið meiri ruglingur af þessu tagi, vegna þess að í rauninni er framsetningu svo víða ábótavant að varla er hægt að trúa neinu sem stendur (Forseti hringir.) vegna þess að það þarf alltaf að fara og handreikna allt frá upphafi til að skilja hvað stendur.