146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta eitt og sér vera áhyggjuefni fyrir okkur, þ.e. Alþingi sem stofnun, að fá svona fram sett gögn til að vinna með. Mér finnst það því miður vera áfellisdómur yfir hæstv. ríkisstjórn líka að hafa ekki hugað betur að þessu. Það að verið sé að gera þetta í fyrsta skipti og ríkisstjórnin hafi nýlega tekið við, finnst mér ekki vera næg afsökun fyrir því að hafa ekki sett hlutina betur fram, því að í ljós kom að það voru til ýmsar betri tölur í ráðuneytunum sem við gátum fengið aðgang að þegar eftir þeim var kallað þó svo að ég hefði gjarnan viljað sjá enn meiri og betri tölur. Ég vona svo sannarlega að þetta verði í fyrsta og eina skiptið sem við sjáum svona fram setta fjármálaáætlun.

Mig langar samt í þessu seinna andsvari að koma aðeins inn á hið pólitíska inntak. Við erum jú hér til þess að takast á um ólíka sýn á það hvernig við viljum reka samfélagið en ekki bara tala um form þó svo að formið hjálpi okkur til þess að takast á um hina pólitísku sýn. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því því að hann kom aðeins inn á það í ræðu sinni að fjármagn vanti í hina ýmsu innviði. Hver er sýn hans á það að áætlunin geri ráð fyrir að þróun samneyslunnar muni dragast saman og verði orðin undir lok þess tímabils sem áætlunin tekur til undir meðaltali undanfarinna 25 ára? Hvernig rímar það við þá (Forseti hringir.) mynd sem við höfum af nú þegar fjársveltum innviðum?