146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir afar góða ræðu. Ég heyri að við erum mátulega sammála varðandi marga þætti þessarar fjármálaáætlunar. Hv. þingmaður nefndi athugasemdir og ábendingar meiri hluta fjárlaganefndar. Þær voru ansi ítarlegar. Ég var nú sammála flestum þeirra enda er það líka spurning um almenna skynsemi, ekki endilega alltaf pólitík. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða skýringu telur hann vera á því að meiri hluti fjárlaganefndar hafi þá ekki komið með breytingartillögur við þingsályktunartillöguna í samræmi við þessar athugasemdir? Það væri áhugavert að heyra það.

Ég á eftir að koma nokkrum punktum að, þetta er svo stuttur tími, ein mínúta. Og líka varðandi framsetninguna sem hann fór ágætlega yfir þar sem er blandað saman rekstrarkostnaði og fjárfestingum. Hver er tilgangurinn með því og af hverju var þetta ekki gert á annan hátt?