146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat þannig sem þetta leit út fyrir mér. Þarna er verið að fara fram með áætlun þar sem stór hluti aukinna framlaga bæði til mennta- og heilbrigðismála fara í steypu, ekki fólk. Það er gagnrýnivert. Það er furðulegt að setja þetta fram á þann hátt. Menn höfðu ágætan tíma til að gera þetta betur en ákveða á einhverjum tímapunkti að setja þetta fram svona. Það er einhver tilgangur með því.

Svo langar mig líka að heyra skoðun hv. þingmanns á eftirfarandi: Hvað með samgöngumálin, sem voru mál málanna fyrir kosningar hjá öllum flokkum? Þar kepptust menn við að lofa því að bæta vel í innviði og sérstaklega í samgöngumálin. Þau loforð tóku í raun yfir heilbrigðismálin sem höfðu þó verið svolítið hávær þar á undan. En hvað gerir ríkisstjórnin? Hún skilar auðu í samgöngumálum. Mig langar að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um þetta. Hvers vegna eru menn ekki með neitt plan? Nú erum við að fara yfir fjárhagsáætlun ríkisins til næstu fimm ára og það er ekkert plan. (Forseti hringir.) Það er bara galtómt. Hvað ætli fólki finnist um það í þessu landi?