146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:52]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að koma inn á samgöngumálin sem ég rétt tæpti á í ræðu minni. Ég fór aðeins betur yfir þau í fyrri ræðu minni og hef svo sem rætt þau áður. Það er óumdeilanlegt að framlag til samgöngumála hefur um nokkurt skeið verið allt of lítið. Það hefur skýrst af mjög einföldum ástæðum í raun. Hér varð efnahagshrun og það voru ekki til fjármunir. Vegagerðin talar um viðhaldsþörf upp á 10 milljarða á ári. Samgönguráðherra umgengst samgönguáætlun bara eins og bókasafn þar sem hann getur valið sér úr henni það sem honum hugnast. Ég held að raunverulega ástæðan felist í því sem svo heyrist í hæstv. samgönguráðherra af og til, þ.e. um að koma einkafjármununum meira þar inn. (SilG: Sem er ekki viðstaddur umræðuna.) (Forseti hringir.) — Sem er að sjálfsögðu ekki viðstaddur umræðuna. Enda skiptir þetta plagg hann afskaplega litlu máli því að hann ætlar að fjármagna sinn málaflokk með einkafjármunum og með því að slá upp tollhliðum.