146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er flókin vinna og af mörgu að taka. Við höfum að minnsta kosti sett fram gagnrýni okkar, meiri hlutinn í fjárlaganefnd, á fjármálaáætlunina. Við höfum tekið fram punkta. Ég held að slík gagnrýni sé bara til góðs. Það er stuttur tími og ég held reyndar að það muni taka okkur töluverðan tíma að vinna okkur inn í svona stóra áætlun fyrir íslenska stjórnsýslu. Það er ekki eins og ráðuneytin séu tilbúin einn, tveir og þrír í þessa umræðu. Þau þurfa greinilega mjög langan tíma til að aðlaga sig. Það sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði hins vegar var að samþykkja tekju- og gjaldastofnana, þessa hliðina. Svo viljum við bara skoða ákveðna hluti og fá betri greiningar og annað sem ég held að sé mjög ábyrgt, að afla frekari gagna. Eins og margoft hefur komið fram hefur tímaröðin verið erfið, þessi ríkisstjórn tekur við í janúar, það er stuttur tími, áætlunin er lögð fram í lok mars og vonandi náum við að fleyta þessu ferli fram á árið á næsta ári þannig að þetta (Forseti hringir.) verði aðeins skikkanlegra. Ég held að það taki upp undir tvö til þrjú ár að ná viðunandi verklagi í þessari framkvæmd.