146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hefur margt athyglisvert borið á góma í þessari umræðu og hefur verið gaman að fylgjast með íhaldinu í henni eins og stundum endranær, og reyndar stjórnarliðum mörgum hverjum. Mikið er gert úr því að nú standi fyrir dyrum mikil raunaukning fjárveitinga inn í hina og þessa málaflokka. Það er lagt saman og blásið út yfir fimm ár og sagt að það séu svo og svo margir milljarðar eða milljarðatugir. Út á það gengur allur málflutningur. Nema hvað, þegar spáð er 5–6% hagvexti og kannski 3–4% á seinni hluta tímans. Auðvitað er auðvelt að sýna fram á að þá verði komnar fleiri krónur inn í heilbrigðismál og almannatryggingar og annað því um líkt.

En hverju eru menn nær með því að nota þennan mælikvarða og þessa aðferðafræði? Hvar eru töflurnar sem sýna okkur nákvæmlega hvað heilbrigðismálin fá næstu fimm ár sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Hvar eru þær? Hvar er taflan sem sýnir okkur að við séum að færa okkur nær því að ráðstafa 11% af landsframleiðslu heilbrigðismál? Hún er hvergi. Hún er hvergi sýnd. Þann samanburð vilja menn ekki ræða. Ég hef spurt að því nokkrum sinnum en fæ auðvitað aldrei nein svör. Það væri hinn eiginlegi mælikvarði á það hvort við ætlum að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustu, að við sýndum það að hún eigi að fá til sín aukinn hlut af því sem til skiptanna verður næstu fimm árin. Hversu stór sneið af hinni margumtöluðu köku verða t.d. heilbrigðismálin með í lok tímans eða ýmsir aðrir málaflokkar?

Niðurstaðan er sú að samneyslan á að dragast saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er langsterkasti og besti mælikvarðinn á það hvað stóran hlut af verðmætasköpuninni í landinu við setjum inn í þessi mál. Hver er samneyslan hjá ríkinu eða hinu opinbera? Það er neysla ríkisins, eins og nafnið bendir til. Það eru öll laun og launatengd gjöld ríkisins. Það eru öll þjónustuinnkaup ríkisins, allt sem ríkið kaupir af öðrum til að veita velferðarþjónustu. Það er samneysla. Þess vegna er það mjög góður mælikvarði á það hvaða afl hið opinbera hefur til að greiða laun og veita velferðarþjónustu. Hún á að lækka á hverju einasta ári frá og með 2019.

Er það ekki niðurskurður? Ef við værum nú bara að reyna að semja um að við ætluðum að halda þessum hlutföllum óbreyttum, að samneyslan fengi fullgildan hlut í vexti þjóðartekna á næstu fimm árum, þá myndi það hlutfall a.m.k. að haldast óbreytt. En það á ekki að gera það, það á að lækka. Það er niðurskurður. Það er niðurskurður á þann eina rétta mælikvarða, mælikvarðann um það hvernig við skiptum kökunni.

Hér var líka áhugaverð umræða í morgun, sem fór að vísu allt of stutt af stað, þegar hæstv. félagsmálaráðherra tók til máls og það var býsna merkilegt sem hann kom inn á. Hann sagði: Ja, það er eðlilegt á tímum vaxandi þjóðartekna að samneyslan minnki eitthvað, að hlutdeild málaflokkanna minnki. Það gera hinir sjálfvirku sveiflujafnarar ríkisfjármálanna. — Já, það er alveg rétt. Ef menn hrófla ekki við tekjum ríkisins og þess vegna sveitarfélaganna á uppgangstímum í hagkerfinu, þá gefa þær tekjur meira af sér. Það merkilega er að tekjurnar geta hækkað sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá koma til sögunnar svokallaðir sjálfvirkir margfaldrar. Það er nefnilega þannig að á uppgangstímum í hagkerfinu gefa tekjustofnarnir meira af sér og þeir stækka sinn hlut og ýmsir aðrir kostnaðarþættir minnka. En vandinn er sá að hinir sjálfvirku sveiflujafnarar, sem eru að óbreyttu byggðir inn í ríkisfjármál, voru teknir úr sambandi allt síðasta kjörtímabil með því að lækka tekjustofna ríkisins. Hefði það ekki verið gert hefði afkoma hins opinbera að sjálfsögðu stórbatnað og afgangurinn aukist um tugi milljarða og aftur tugi milljarða. Jafnvel þó að menn hefðu notað eitthvað af þeirri aukningu í fjárfestingar í innviði í velferð hefði samt verið hægt að skila meiri afgangi af ríkissjóði. En þessi sjálfvirka innbyggða sveiflujöfnun var tekin úr sambandi með stanslausum skattbreytingum á síðasta kjörtímabili sem alltaf voru ávísun á tekjutap ríkisins, út úr tekjuskatti, virðisaukaskatti, með því að fella niður tolla og vörugjöld o.s.frv.

Hvað gera svo hægri menn í kjölfarið? Þeir taka hina sjálfvirku sveiflujafnara líka úr sambandi gagnvart mögulegri niðursveiflu með því að setja hið fáránlega útgjaldaþak inn í fjármálastefnuna, að það megi ekki verja meira en 41,5% af vergri landsframleiðslu til hins opinbera í heild, ríkis og sveitarfélaga. Þannig að á báðar hliðar hefur þessi hægri stjórn eyðilagt hina sjálfvirku innbyggðu sveiflujöfnun opinberra fjármála. Það er nú öll snilldin. Og þeir hafa gert þetta áður með skelfilegum afleiðingum fyrir Ísland. Hefði nú verið gaman að hafa hagfræðinginn eða hvað hann nú er menntaður, hæstv. félagsmálaráðherra, og ræða þetta aðeins betur við hann.

Íhaldið er líka samt við sig í málflutningi. Þeir hafa verið að reyna það, nokkrir stubbarnir hér, að koma upp og ráðast á breytingartillögur okkar Vinstri grænna og þess vegna Samfylkingarinnar, og segja að þær séu óábyrgar, þær séu ægilegar skattahækkanir, eins og þeir hafi nú efni á því, stjórnarliðarnir. Já, það er rétt, við erum að leggja til umtalsverða tekjuöflun og við erum að leggja til talsvert aukið útgjaldasvigrúm algerlega í samræmi við málflutning okkar allt síðasta kjörtímabil, í samræmi við okkar kosningaáherslur þar sem við lögðum fram okkar eigin ríkisfjármálaáætlun, og í samræmi við málflutning okkar í stjórnarmyndunarviðræðunum. Þá kom auðvitað glöggt í ljós að flokkar sem lofað höfðu bullandi útgjöldum í aðdraganda kosninga, eins og Viðreisn, voru ekki tilbúnir til að sækja eina einustu krónu í fjármögnun. Nei, og þar skilja leiðir milli flokka sem eru ábyrgir og standa líka við það sem þeir segja í málflutningi og tillöguflutningi á Alþingi eftir kosningar. Ég er stoltur af því að við skulum gera það.

Ég öfunda ekki þá sem riðu um héruð í september og október sl. og lofuðu stórfelldum fjárveitingum í vegagerð og í uppbyggingu heilbrigðis- og menntakerfis, í innviði, í að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Ef þeir hafa fundað með löggunni hafa þeir að sjálfsögðu boðið fleiri lögreglustöður og ef þeir hafa hitt Landhelgisgæsluna hefur örugglega verið lofað ríflegum fjárveitingum þar í reksturinn. En hvað stendur svo eftir? Ekki neitt? Jú, (Fjmrh.: 40 milljarðar.) meðan hagvöxturinn helst. Og ef þetta gengur svona allt eftir þá fjölgar auðvitað eitthvað krónunum. Það er ekki verið að segja við þessa aðila að það eigi að gera sérstaklega búbót þeim til handa. Nei, nei, það er ekki. Og tekjuöflunin og útfærslan á þessu liggur algerlega fyrir og vinir mínir í Sjálfstæðisflokknum þurfa ekkert að velkjast í vafa um það. Við höfum talað skýrt í þeim efnum. Við ætlum að sækja þessa fjármuni til þeirra sem eru best aflögufærir. Það eru auðugustu fjölskyldurnar í landinu sem auka nú auð sinn hraðar en nokkru sinni fyrr, eins og reyndar víðar í vestrænum hagkerfum, þannig að samþjöppun auðsins er að verða svo yfirgengileg að engu tali tekur. Örfá hundruð eða þúsund hér, fáein prósent eða prómill, eiga orðið að mestu leyti allan hinn uppsafnaða auð. Og að sjálfsögðu á að jafna kjörin m.a. með því að sækja fjármuni þangað. Það er alveg sjálfsagt mál. Það er t.d. gert í hinum ríka Noregi, hefur lengi verið gert, þar er auðlegðarskattur, „formuesskatt“.

Það er eðlilegt að þjóðin fái meiri arð af auðlindum sínum. Það er eðlilegt að þeir sem eru með mestar fjármagnstekjur borgi meira. Það er eðlilegt að við leggjum á hærri kolefnisgjöld og græna skatta. Hvaða vit er í að fullnýta ekki markaða tekjustofna til vegamála? Þar er 8–9 milljarða slaki. Þá fjármuni gætum við sett í að byggja upp vegina núna á tímum lágs olíuverðs og sterks gengis þegar kaupmáttur landsmanna gagnvart bensíni á bílinn er meiri en nokkru sinni fyrr. Það er eðlilegt að umferðin borgi. Þannig hefur það verið alltaf hugsað, nema hægri menn hafa vanrækt að láta þessa tekjustofna fylgja verðlagi. Þetta eru þær tekjujöfnunaraðgerðir sem við erum að tala um í þágu heilbrigðis og menntakerfisins, í þágu vegakerfisins og samgangnanna, í þágu aldraðra og öryrkja, til þess að geta búið betur að löggæslu, Landhelgisgæslu og öðrum slíkum hlutum í landinu.

Stjórnarliðar eiga eftir að fá það á baukinn að hafa valið sér þá taktík í þessari umræðu að þetta sé allt saman algjörlega stórkostlegt og þvílík gullöld og gleðitíð fram undan. Þegar fjárlagafrumvarpið kemur í haust með sundurliðun rekstrarfjár niður á einstakar stofnanir mun blasa við niðurskurður og það víðar en í framhaldsskólunum. Eru stjórnarliðar vissir um að þetta sé skynsamlegur málflutningur? Það gæti reynst skammgóður vermir að hampa svona óskaplega þessari sveltistefnu, fjármálaáætlun, (Forseti hringir.) sem er auðvitað í engu samræmi við málflutning fyrir kosningar um þörfina fyrir uppbyggingu og sókn (Forseti hringir.) á Íslandi, og í engu samræmi við aðstæðurnar. (Forseti hringir.) Þannig að við erum ekki að segja okkar síðasta orð í þessari umræðu, herra forseti.