146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir góða ræðu. Það er alltaf áhugavert að hlusta á hann tala um fjármál þar sem hann hefur verið hér lengi. Hv. þingmaður hefur þar að auki verið starfandi fjármálaráðherra og þekkir þar af leiðandi ríkisfjármálin mjög vel.

Hv. þingmaður nefndi hér samgöngumálin. Ég veit hann hefur brennandi ástríðu fyrir þeim málaflokki. Hann nefndi að markaðir tekjustofnar væru ekki notaðir og hefðu ekki verið uppfærðir og annað. Mig langar til að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess og skoðun hans á því hvers vegna núverandi stjórnarflokkar hafi leyft sér að skila auðu í samgöngumálum að þessu sinni þar sem samgöngurnar voru mál málanna fyrir síðustu kosningar. Það er stórt gat í fjármálaáætlun og við vitum ekki hvert þessi ríkisstjórn ætlar að fara í samgöngumálum. Það er mjög slæmt.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann út í málefnasviðið sem lýtur að sveitarfélögunum og byggðamálum þar sem hann þekkir það ágætlega. Við fengum umsögn frá Ríkisendurskoðun í nefndinni og einnig ítarlega umsögn frá fjármálaráði,. Hefur hv. þingmaður farið yfir umsögn fjármálaráðs um sveitarfélögin? Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á að forsendur séu óljósar og að ekki sé gert ráð fyrir að forsendur breytist sem gefnar eru í fjármálaáætlun. Fjármálaráð gagnrýnir að ekki sé gert ráð fyrir neinum aðgerðum til að grípa til ef þær breytist. Svo hefur sambandið líka gagnrýnt þennan lið (Forseti hringir.) mjög harðlega og talað um samráðsleysi og óraunsæ afkomuviðmið og fleira.