146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ákvæði í lögunum um opinber fjármál sem snúa að samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sem ég held að séu til bóta, sérstaklega að fjármálaráðherra ber í upphafi hvers árs að ræða við sveitarfélögin og hann þarf að landa einhverju samkomulagi við þau eða sameiginlegum skilningi áður en hann getur í raun lagt hina opinberu áætlun fram. Ég hef verið að hvetja sveitarstjórnarmenn til dáða að vera dálítið fasta fyrir í þeim viðræðum. En það er ósköp lítið að gerast og hefur ósköp lítið gerst, t.d. ef við nefnum það bara að sveitarfélögin eru ekki enn komin með neina hlutdeild í tekjum af vaxandi ferðaþjónustu. Búið er að ræða um það núna í þrjú, fjögur ár að þau fengju hlutdeild í gistináttagjaldi eða einhverjar tekjur til að mæta stóraukinni útgjaldaþörf hjá sér vegna þjónustu við ferðaþjónustuna. En það var ekki gert þannig að sveitarfélögin eru að þessu leyti í þröngri stöðu. Þau eru með um einn þriðja af opinberri veltu. Þau fara með gríðarlega mikilvæga hluta starfrækslu velferðarkerfisins í landinu. Ég hef stundum sagt og ætla að endurtaka það hér: Mér finnst stundum þessi landamærahugsun (Forseti hringir.) of rík. Við erum í þessu saman, ríki og sveitarfélögin, að reka eitt stykki velferðarsamfélag. (Forseti hringir.) Það verður auðvitað að jafna klyfjunum þannig að bæði stjórnsýslustigin búi við sómasamlega (Forseti hringir.) afkomu til þess (Forseti hringir.) að gera það sem lög skylda þeim.