146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:26]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargóða ræðu. Hann talar af mikilli þekkingu um málaflokkinn sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef heyrt það á máli hv. þingmanns að hann hefur gagnrýnt það ógagnsæi sem á sér stað í núverandi ríkisfjármálaáætlun, þar sem rekstrarkostnaði og stofnkostnaði er víða blandað saman. Hann hefur einnig gagnrýnt hversu erfitt hefur reynst að fá upplýsingar, í þeirri nefnd sem ég og hv. þingmaður sitjum í, um hvernig fjármagni sé skipt niður á markmið.

En ég vildi spyrja hann um það sem hann talaði örlítið um í ræðu sinni, hann talaði um fjármálastefnuna sem var samþykkt hér á þingi fyrir nokkru með útgjaldaþakinu 41,5% af vergri landsframleiðslu. Það er verið að festa að útgjöld ríkisins megi ekki fara yfir þetta 41,5%. Ég er að velta því fyrir mér hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geti tekið undir það með mér að það hafi verið varhugavert að setja þetta þak inn og binda það við verga landsframleiðslu, að það sé varhugavert sérstaklega vegna þess að ef niðursveifla verði þá séum við bundin þessu þaki. Ég spyr hvort hv. þingmaður hafi þá einhverjar upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin ætlar sé að verja þjónustu eins og heilbrigðisþjónustuna, menntamálin, samgöngumálin og þannig er hægt að telja áfram. Hvaða leiðir sér hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að ríkisstjórnin gæti þurft að fara ef niðursveifla kæmi til, eða einkaframtakið eða hvað það er; hefur hann einhverja hugmynd um það?