146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Nú líkar mér við virðulegan forseta. Til að svara síðustu spurningunni strax: Miðað við gögn sem okkur tókst að fá frá ráðuneytinu og Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði er líklegt að það þyrfti 3,5–4 milljarða kr. til þess að geta gert allt sem við myndum vilja gera, setja gólf þannig að enginn fengi lægri greiðslur en 300 þús. kr., lengja fæðingarorlofið í eitt ár og að einhverju leyti mæta því að lengja fæðingarorlof þeirra sem þyrftu að heiman frá sér til að bíða eftir því að fæða á öruggum stað. Þetta er af þessari stærðargráðu, 3,5–4 milljarðar, og til þess þyrfti sennilega hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi að fara upp í 0,924, sýnist mér lauslega reiknað. Það er nú allt og sumt. Það væri auðvitað bara umbylting í fæðingarorlofsmálum. En svarið er: Nei, það er ekkert af þessu inni í þessari áætlun. Ekki neitt. Það er bara þetta, sem menn hampa mjög, að hækka eigi þakið úr 500 í 600 þús. kr. Það á að vera komið til framkvæmda árið 2020. En bíddu, hvað er það? Gerir það betur en halda í við verðlag eða launaþróun á þessum tíma? Nei, ég efast um það. Ég held að það sé nokkurn veginn ígildi þess að 500 þús. kr. þak haldi áfram á raungildi dagsins í dag, það er ekki meira en það, það er nú allur metnaðurinn.

Ég vildi aðeins bæta við, af því ég hef aðra mínútu, fyrra svar um þakið. Það er ekki bara óskynsamlegt að hafa þetta brjálæðislega þak vegna þess að það aftengir alla venjulega hugsun í sambandi við beitingu ríkisfjármála til sveiflujöfnunar og að vinna á móti hagsveiflu, bæði á uppgangstímum og í niðursveiflu. Það er líka alveg sérstaklega óskynsamlegt við aðstæður Íslendinga eins og þær eru núna af tveimur ástæðum augljóslega. Nú erum við að fara að takast á við af verulegum þunga á næstu árum, 10 til 20 árum seinna en margar nágrannaþjóðir, hratt breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Það hafa allir alls staðar gert ráð fyrir því að það væri áköllun á að heilbrigðisútgjöld og umönnunarútgjöld hlytu að aukast og þyrftu meira til sín. Í öðru lagi (Forseti hringir.) á Ísland eftir að vinna upp mikla uppsafnaða þörf (Forseti hringir.) á fjárfestingum af ýmsu tagi í innviðum og velferð sem hin mögru ár skildu eftir.