146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Menn hömpuðu mikið eða hafa talað um hina miklu aukningu milli áranna 2016 og 2017 og farið með háar tölur í þeim efnum. En bíddu nú við, var ekki 6,5% eða var það 6,7% hagvöxtur á síðasta ári? (Gripið fram í: 7,6.) 7,6% segi ég. Er þetta þá einhver óskapleg aukning mælt á þann mælikvarða? Hagkerfið stækkaði verulega og það er eðlilegt að ríkið og starfsemi þess taki fyllilega sinn hluta af þeim vexti. Þetta eru engin ósköp umfram hagvöxtinn sem útgjaldarammarnir stækka á þessu ári frá fyrra ári. Svipað er að segja um framtíðina. Gangi allar þessar hagvaxtarspár eftir, þá er þetta ekki óraunhæft sem við leggjum til.

Jú, þetta er vissulega bratt, en í okkar tillögum er hver einasta króna inn í útgjöld fullfjármögnuð og rúmlega það. Við ætlum að auka afganginn af ríkissjóði um sirka hálft prósent af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Það er aðhaldssöm aðgerð í sjálfu sér. Ég er alveg ófeiminn við að rökræða hana við hvaða þjóðhagfræðing sem er. Það þarf vissulega að hafa sjónir á því hvernig menn myndu dreifa t.d. auknum fjárfestingum til að auka ekki við spennu í geirum sem eru þandir, eins og byggingariðnaður og mannvirkjagerð, það gera sér allir grein fyrir því. Veljum þá dreifðar og smærri framkvæmdir vítt og breitt um landið o.s.frv.

En ég held það valdi engri óskaplegri þenslu að leggja aðeins meira inn í Landspítalann, inn í háskólana, inn í framhaldsskólana. Þörfin er bara svona. Það er staðreynd. Það þarf um það bil þetta mikið til ef við eigum að geta staðið undir nafni og sagt að við séum að vinna upp vanrækslusyndirnar frá undanförnum árum, eða sem þarf ekkert endilega að kalla svo, bara horfast í augu við þann veruleika að við urðum að herða ólarnar á löngu árabili og lögðum mjög lítið inn í þessa málaflokka og drógum saman viðhald. Einhvern tímann verðum við að vinna þetta upp (Forseti hringir.) og hvenær á að gera það ef ekki á sjöunda eða áttunda ári hagvaxtar og þegar aðstæður þjóðarbúsins (Forseti hringir.) eru í raun og veru orðnar mjög góðar til þess? Ég spyr bara hv. þingmann. Hvenær sér hann það fyrir sér? Þegar aftur (Forseti hringir.) er komin niðursveifla, á þá að fara að reyna að vinna þetta upp?