146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Íhaldið talar alltaf um skatta eins og þeir séu af hinu vonda. Íhaldið passar sig alltaf á að tala bara um skattana, aldrei til hvers þeir eru. Íhaldið vill ekki umræður um ástandið í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, stöðuna í framhaldsskólunum, háskólunum, eða kjör öryrkja. Nei, ég held að það vilji bara tala um hvað skattar séu vondir og að þeir menn sem ætla að hækka þá séu hryllilegir.

Við erum ekki að þessu af því að það sé markmið í sjálfu sér að hækka skatta. Við erum að þessu af því að afla þarf tekna til að reka gott velferðarsamfélag á Íslandi. Það er ábyrg pólitík að þora að segja það og standa við það. Það er ómerkileg pólitík að reyna að ljúga því að fólki að hægt sé að reka öflugt norrænt velferðarsamfélag á Íslandi á einhverjum amerískum skatthlutföllum. Það hefur áður verið reynt og fór illa. Þetta er bara svona. Það verða að fara saman orð og gjörðir, orð og tölur. Það er ótrúlegt rof í þessari fjármálaáætlun frá því sem víða er fallegur texti um allt hið góða sem menn vildu gera og yfir í tölurnar, þá verður bara rof, (Forseti hringir.) það er ekkert samhengi, það er ekki tengt. Ég segi (Forseti hringir.) nú bara eins og Skriðjöklarnir forðum: Er ekki kominn tími til að tengja?