146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Píratar hafa beðið um upplýsingar um hagræna flokkun á þessari fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál. Nauðsynlegt er jafnframt að eyða þeirri óvissu sem stofnanir hafa gagnvart fjármálaáætluninni eins og kemur fram í fjölda umsagna, eins og t.d. í umsögnum frá Lögreglustjórafélagi Íslands og Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Það er nauðsynlegt að fram komi upplýsingar um hvaða áhrif stefna málefnasviðanna sem fjármálaáætlun leggur fram hefur á fjárlögin þannig að niðurskurður eða aukin útgjöld sem koma fram á fjárlögum komi ekki á óvart.

Forseti. Það er ekki nauðsyn að nákvæmar tölur komi fram hvað það varðar, bara hvort stefnt sé að niðurskurði eða aukningu með tilliti til fráviks frá meðaltalinu í málaflokknum eða stofnuninni. Ef þær upplýsingar koma ekki fram lendum við í sama geðþóttaákvarðanaferlinu í kringum fjárlög og venja er og þá án þess að hafa hugmynd um hver stefnan sé í framhaldinu. Samkvæmt lögum um opinber fjármál á hagræn flokkun gjalda að fylgja fjármálaáætlun: Greining gjalda í rekstur, tilfærslur og fjárfestingu samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál.

Eftirfarandi upplýsinga var óskað í fyrirspurn sem hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson lögðu fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Óskað er eftir sundurliðun eftir málefnasviðum og hagrænni flokkun, sundurliðað í launakostnað og rekstrarkostnað, skipt eftir lögbundnum verkefnum, þar með talið tímabundnum verkefnum, yfirstandandi og fyrirhuguðum, og öðrum kostnaðarliðum.“

Það sem skiptir máli fyrir okkur er að talan sem er sett í málefnasviðið sé útskýranleg, hvar þær breytingar sem gera á lenda, t.d. í rekstri, einskiptisstofnkostnaði og því um líku. Ef um sérstakar aðgerðir er að ræða sé útskýranlegt hverjar þær eru án þess þó að það sé endanlega sagt nákvæmlega í hvaða stofnun það fjármagn lendir. Við þingmenn Pírata, sem og þingmenn margra annarra flokka nema kannski ríkisstjórnarflokkanna, höfum kallað eftir þessum upplýsingum frá því að þetta mál kom inn á Alþingi og þjóðþekkt er svar frá hæstv. fjármálaráðherra þegar þetta var tekið fyrir í óundirbúnum fyrirspurnatíma, að það myndi skemma ferlið ef við þingmenn fengjum þessar upplýsingar.

Forseti. Rétt í þessu fengum við Píratar mjög alvarlegar fregnir, að upplýsingar sem við höfum kallað eftir eru hreinlega ekki til samkvæmt fjármálaráðuneytinu. Það kom fram á fundi sem hv. þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, átti með fulltrúa í fjármálaráðuneytinu til að reyna að komast að því hvort hægt væri að bregðast við þessari skriflegu fyrirspurn frá okkur. Það sem kom fram á þessum fundi er að fjármálaáætlunin sem við erum að ræða hér byggir aðeins á fjárlögum 2017, plús/mínus einhverjir hagrænir þættir. Það sem stendur út af er óútskýrt og það er ekki hægt að fá upplýsingar um af hverju upphæð á einhverju málefnasviði er fengin. Ljóst er að slumpað er á upphæðir og varla hægt að segja annað en að þetta eru algerlega ólíðandi vinnubrögð, hvorki fagleg né í samræmi við lög. Við munum því ekki fá nein svör við fyrirspurnum okkar til ráðherra en nauðsynlegt er að benda á að þetta var í raun og veru unnið án faglegra forsendna sem útskýrir alla þá skallabletti og gleymdu málaflokka sem falla undir fjárlög alla jafna. Á það hefur ítrekað verið bent frá ólíkum aðilum í umsagnarferlinu og jafnframt hafa þingmenn bent á það í umsögnum til fjárlaganefndar frá ólíkum fagnefndum. Þingmenn hafa líka verið mjög duglegir að benda á þessa staðreynd í þingsal. Fjármálaráðherra virðist ekki frekar en aðrir ráðherrar kippa sér upp við það þó að þingmenn kalli eftir því að geta tekið upplýstar ákvarðanir.

Ljóst er að hér er verið að fremja lögbrot því að samkvæmt lögum um opinber fjármál á hagræn greining að fylgja fjármálaáætlun eins og kemur fram í inngangi að fjármálaáætlun frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Fjármálaáætlun er nú lögð fram í annað sinn á grundvelli laga um opinber fjármál.“ — Sem verið er að brjóta. — „Fjármálaáætlun felur í sér útfærslu á markmiðum fjármálastefnu og á stefnumörkun um þróun tekna og gjalda opinberra aðila. Samkvæmt lögunum skal leggja stefnuna til grundvallar við gerð frumvarps til fjárlaga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir komandi fjárlagaár. Fjármálastefna er sett fram í upphafi kjörtímabils og er ekki endurskoðuð nema brýna nauðsyn beri til, en fjármálaáætlun er hins vegar endurskoðuð að vori hvers árs til fimm ára í senn.

Í áætluninni eru sett markmið fyrir öll málefnasvið. Með þessu fyrirkomulagi er ætlunin að skapa sem skýrast samhengi milli faglegra markmiða og þeirra fjármuna sem varið er til einstakra málefnasviða.

Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar var lögð fram á Alþingi á fyrsta degi vorþings eftir að ný ríkisstjórn tók við, en samkvæmt lögum skal það gert svo fljótt sem kostur er. Tímasetning kosninga og tímafrekar stjórnarmyndunarviðræður hafa sett gerð þessarar fjármálaáætlunar í nokkra tímaþröng.

Fjármálastefna og -áætlun taka til opinberra aðila í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hins opinbera. Þótt ríkisreksturinn sé mun umfangsmeiri er það sameiginleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að tryggja að ákvarðanir séu í samræmi við markmið hagstjórnarinnar, einkum að fjárfestingar séu minni þegar þensla er mikil og öfugt. Samstarf ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga á sviði opinberra fjármála er einn lykilþáttur í því að tryggja aðhald í opinberum fjármálum á tímabilinu. Þetta gerir ríkinu og sveitarfélögunum betur kleift að mæta niðursveiflu síðar meir og milda áhrif hennar. Ríki og sveitarfélög munu því leitast við að haga útgjalda- og skattstefnu sinni á þann veg að hún verði ekki þensluhvetjandi á fyrri hluta tímabilsins.

Þá er mikilvægt að búa svo um hnúta að fjárfestingar fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga séu í takti við hagstjórnarmarkmið.“

Við vorum rétt í þessu að frétta að í raun og veru hefur ekki átt sér stað nein hagræn greining. Þær tölur og þær upplýsingar sem við höfum kallað eftir eru ekki til. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig þessi markmið eru greind, hæstv. fjármálaráðherra, ég skil það bara ekki. Ég verð að viðurkenna að ég er í hálfgerðu sjokki yfir að verða vitni að öðrum eins amatörisma og blekkingaleik. Það er ekki skrýtið að svona mikil óvissa ríki um stöðu stofnana og annarra sem venjubundið er að hafa á fjárlögum. Það hefur komið í ljós, forseti, að gríðarlega margir aðilar eru með sitt starf í algerri óvissu og ég vona svo sannarlega að við fáum hér, næst þegar fjármálaáætlun verður lögð fram, fjármálaáætlun sem byggir á lögum, að hér sé ekki verið að leggja fram eitthvað sem í raun og sann er lögbrot.

Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum fengið þessar upplýsingar mun fyrr þannig að hægt hefði verið að bregðast við þeim á einhvern máta. Fyrst þetta er í annað skipti sem áætlunin er lögð fram getur þessi sama áætlun í fyrra skiptið ekki hafa verið gerð eftir lögum um opinber fjármál. Mér finnst það mjög alvarlegt. Til hvers erum við að setja lög og hvers konar skilaboð eru það út í samfélagið ef æðstu ráðamenn og ráðuneyti eru ekki tilbúin að fylgja landslögum? Eru lög um opinber fjármál bara eitthvert djók? Hvernig stendur á því að þetta þykir í lagi og hvernig stendur á því að þingmenn meiri hlutans hafa ekki gert meira til þess að kalla eftir þessum upplýsingum, þingmenn sem hafa beint aðgengi að ráðherrum þessarar ríkisstjórnar? Það vekur furðu, ég verð að segja það, að hæstv. fjármálaráðherra hafi ítrekað hunsað óskir og kröfur frá þingmönnum um aðgengi, að hæstv. ráðherra hafi hreinlega ekki getað sagt satt og viðurkennt að þessar upplýsingar sem við erum að kalla eftir séu ekki til.

Ég gæti haldið langa ræðu um hvað þessi lög um opinber fjármál eru gölluð. Og nú veit ég af hverju þau eru svona gölluð. Ég vonast til þess að þingmenn meiri hlutans og ráðherrar bregðist við á þann veg að þetta muni aldrei gerast aftur. Ég óska þess og krefst ef hér eiga að vera einhver þinglok á næstu dögum að það komi skýr yfirlýsing frá ráðamönnum þessarar stjórnar um að næsta fjármálaáætlun verði gerð samkvæmt lögum um opinber fjármál. Mér finnst þetta gríðarlega alvarlegt og ég átta mig ekki á því af hverju þingmenn meiri hlutans og ráðherrar eru svona værukærir. Átta þeir sig ekki á því að þeir gætu hæglega verið hinum megin við borðið? Þetta er fjármálaáætlun sem átti að tryggja ákveðna fagmennsku í fjármálum ríkisins. Ég get ekki sagt að mér finnist þetta mikil fagmennska. Mér fannst þetta vera, svo ég leyfi mér að nota uppáhaldsorð Bjartrar framtíðar, fúsk, algjört fúsk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Mér finnst við einhvern veginn vera á þannig stað með þetta löggjafarþing núna. Ég veit að fólk gerir sitt besta en ég hef bara aldrei upplifað annað eins fúsk og á þessu þingi og samt er ég sá þingmaður sem lengst hefur verið samfellt í stjórnarandstöðu eftir hrun. Ég hef aldrei séð annað eins fúsk. Ég get alveg sagt með sanni, forseti, að þegar verk eru gerð vel hrósa ég því og ég hjálpa til. Mér hefur ekki verið gefið tækifæri til að hjálpa til með þetta. Nei, mér hafa verið gefnar falskar og rangar upplýsingar og það truflar mig mjög, sérstaklega þegar við erum að tala um svona. Þetta lítur út fyrir að vera í raun ákaflega löng fjárlagaumræða hérna og umræður og vinna í kringum fjárlög. Það er erfitt að taka mark á þessum ramma, ekki hægt undir neinum kringumstæðum, ekki hægt að taka mark á nýjum lögum um opinber fjármál eða nýrri ályktun fyrir líklega næsta ár. Það er kannski bara upphafið en núna, nei, það verður ekki tekið mark á þessu. Þetta stenst ekki lög. Þegar eitthvað stenst ekki lög tekur maður ekki mark á því. Hér skal ekki byggja á ólögum heldur góðum lögum.

Ég ætlaði ekki að trúa því þegar hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom af fundi í dag og sagði að honum hefði verið tjáð að við myndum ekki fá svör við þessum fyrirspurnum af því að forsendurnar fyrir þessum fjárlögum eru ekki til. Ég veit ekki hvað á að segja meira, forseti.