146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum þessa yfirferð og sérstaklega það að hún hafi notað orðið slump varðandi það hvernig komist er að ýmsum niðurstöðum í þessari áætlun. Ég held að það sé nokkuð nálægt því að lýsa því hversu vönduð vinnubrögð eru viðhöfð í fjármálaráðuneyti hæstv. ráðherra, Benedikts Jóhannessonar. Það er slumpað og síðan sett fram eins ógagnsætt og hægt er þannig að við getum ekki ráðið í tölurnar.

Þingmaðurinn gerði að umtalsefni lög um opinber fjármál. Þá velti ég fyrir mér, af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hún situr í fékk Ríkisendurskoðun á sinn fund, hvort það hafi komið til tals hvort sú framsetning að grauta saman rekstrargrunni og fjárfestingum í eina tölu gegnum alla áætlunina standist nokkuð, hvorki alþjóðlega reikningsskilastaðla sem er alltaf haldið á lofti né hreinlega lög um opinber fjármál. Í 52. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Reikningsskil fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild skulu gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila sem miða við rekstrargrunn.“

Kom þetta til tals þegar Ríkisendurskoðun mætti á fund nefndarinnar? Fyrst við erum að tala um Ríkisendurskoðun, hvað getur þingmaðurinn sagt mér um upplifun Ríkisendurskoðunar sem ég myndi halda að væri með talnagleggri stofnunum landsins? Það sem ég les út úr umsögn stofnunarinnar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er (Forseti hringir.) að þar hafi menn hvorki skilið upp né niður í fjármálaáætluninni og framsetningunni.