146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að ekki sé um áhugaleysi að ræða hjá forsætisnefnd. Ég tel að forsætisnefnd hafi ekki verið meðvituð um að á bls. 194 í þessari fjármálaáætlun standi, og hér er bein tilvísun, með leyfi forseta:

„… að vilji sé til þess að innleiða valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og að til greina komi að fela umboðsmanni Alþingis að sinna eftirlitinu. Viljinn er þó ekki meiri en svo að áætlunin tilgreinir að ekki sé fjárhagslegt svigrúm til þess að ráðast í verkefnið að sinni.“ — Frá hendi fjármálaráðherra væntanlega eða dómsmálaráðuneytis.

„Þó er hér um að ræða eina mikilvægustu réttarbót seinni tíma fyrir þá sem af einhverjum orsökum eru sviptir frelsinu af hinu opinbera. Fordæma verður að ríkisstjórnin svíki með þessu ítrekuð loforð um að koma innleiðingunni í gagn hið fyrsta og telja með ólíkindum að ekki standi til að gera bragarbót á þessu mikilvæga máli á næstu fimm árum.“

Því að Alþingi ályktaði og Alþingi vann í nánu samstarfi við innanríkisráðuneytið í tíð Ólafar Nordal heitinnar að því að þetta færi í fullgildingu. Þess vegna var þetta samþykkt einróma á þinginu. En af einhverjum ástæðum stöndum við frammi fyrir því að þessi ríkisstjórn telur að ekki sé til fjárhagslegt svigrúm til næstu fimm ára.

Ég vil bara benda á það að fyrir nokkrum árum var saklaus maður sviptur frelsi sínu og settur í einangrun í tíu daga við óviðunandi aðstæður og hann hlaut af því örorku og varanlegan skaða. Ef við hefðum verið komin með OPCAT þá hefðu þær aðstæður aldrei komið upp. Núna er það þannig að ef við ætlum ekki að fullgilda þetta (Forseti hringir.) þá eigum við á hættu að ómannúðleg og grimmileg meðferð á frelsissviptu fólki sé möguleg.