146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

um fundarstjórn.

[10:35]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Í samkomulagi um þinglok nú um helgina, sem vonandi hefur náðst, varð sátt um að málefni fatlaðra og félagsþjónusta sveitarfélaga myndu bíða haust og njóta þar sérstaks forgangs í meðhöndlun þingsins. Það er ekkert launungarmál að niðurstaðan olli mér talsverðum vonbrigðum því að ég taldi mikilvægt að málið kæmist tímanlega fram til undirbúnings, bæði fyrir sveitarfélög og ríki í aðlögun. En með þessa niðurstöðu treysti ég því hins vegar að myndast geti góð samstaða á þingi í haust um að ljúka málinu tímanlega. Það er mjög brýnt að sveitarfélögin fái ráðrúm til þess að undirbúa innleiðingu þessara mikilvægu breytinga og ekki síður að skjólstæðingar, þeir sem njóta eiga þessarar þjónustu, fái góðan fyrirvara gagnvart því.

Ég treysti því að samkomulag náist í haust, að það haldi og að málið nái hratt og vel fram að ganga.