146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

um fundarstjórn.

[10:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað upp og útskýra orð sín í fjölmiðlum sem auðvitað komu mér og öðrum hv. þingmönnum mjög á óvart í ljósi þess að hér er ekki um niðurstöðu samninga að ræða. Staðan er einfaldlega sú að umrædd mál, sem þverpólitísk samstaða er um að verði kláruð, komu seint fram og krefjast aukinnar vinnu. Sá var sameiginlegur skilningur allra formanna, allra stjórnmálaflokka sem sátu hér á fundi á laugardaginn, þannig að ekki er verið að semja mál út af borðinu, hér er verið að horfast í augu við raunveruleikann sem er sá að Alþingi þarf að vanda sig við löggjöf. Það ætti hæstv. ráðherra auðvitað að vera sáttur og ánægður með, sérstaklega í ljósi þess að allir formenn allra flokka lýstu því að þeir væru reiðubúnir að gefa þessu máli sérstaka vigt í haust og ljúka þeirri vinnu eins hratt og unnt væri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)