146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

um fundarstjórn.

[10:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki til þess að nokkur í þessum sal sé á móti því að ljúka þessum verkefnum. En allir vilja gera það vel. Á fundi formanna á laugardag voru menn sammála um að þessi mál þyrftu meiri og betri skoðun núna yfir sumartímann, m.a. í ráðuneytinu, áður en hægt væri að afgreiða þau. Það lögðu allir á það áherslu að þeir vildu koma þessum málum vel fyrir, allir flokkar á Alþingi. Þess vegna kom mér gersamlega í opna skjöldu yfirlýsing ráðherrans í Fréttablaðinu í morgun og okkur öllum sem á þeim fundi vorum.

Ég legg nú til, frú forseti, þegar ríkisstjórnin fundar með forseta að ríkisstjórnin öll sé upplýst um hvað þar fari fram svo svona uppákomur verði ekki. Ég hefði kosið að ráðherrann hefði beðið okkur afsökunar á því að segja að hér hefðu verið einhverjir samningar sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefði komið í veg fyrir. Staðreyndin er sú að málið þarf aðeins meiri vinnu, sérstaklega hitt málið sem tengist NPA, þ.e. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem er algerlega óunnið, engir gestir komnir fyrir þingið. Málin komu einfaldlega of seint fram. En við munum að sjálfsögðu vanda okkur og vonandi verður vinna ráðuneytisins í sumar skýr og góð þannig að hægt verði að klára þessi mál fljótt og vel í haust.