146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs.

369. mál
[11:10]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Athugasemd mín snýr að því á þeim stutta tíma sem ég hef, að ein helsta áskorun stjórnvalda við að aðlaga regluverk og löggjöf í heimi þar sem tækniframförum fleygir fram sé einmitt að halda í við þær miklu breytingar sem eru að verða, halda í við þá miklu hröðun sem er að verða á markaði m.a. vegna tækniframfara. Það er mikil áskorun. Leigubílaþjónusta er dæmi um markað sem hefur breyst alveg gríðarlega. Þá er tækifæri til þess að huga að slíkum spurningum, eins og hvort sérleyfi þurfi og fleira.

Hinn punkturinn sem ég vildi koma að er hvort einhver munur sé á þeirri þjónustu sem þekkist nú víða um heim, Uber-þjónustu, þar sem samskipti milli seljanda þjónustunnar og kaupanda eru með beinum hætti, og til að mynda Airbnb-leigu. Þetta er alveg nákvæmlega það sama. Þegar menn huga að öryggi farþega er hægt að hafa almenn skilyrði, svo sem um að ökutæki sé í lagi, að ökumaður hafi ökuréttindi, (Forseti hringir.) en að öðru leyti mun markaðurinn alltaf sjá til þess að farið sé eftir þeim þörfum sem kaupandinn sækist eftir.