146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs.

369. mál
[11:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Teiti Birni Einarssyni er þetta mikil áskorun og í raun, eins og hv. fyrirspyrjandi, Pawel Bartoszek, nefndi held ég að það sé skynsamleg nálgun á þetta að við vöndum okkur vel, tökum jafnvel smærri skref til að nálgast það að halda í við breytta tíma. Ég er algjörlega sammála því að við getum ekki haldið áfram í algjörlega óbreyttu umhverfi til lengri tíma. Ég held að það sé rétt að við vöndum okkur.

Hér var nefndur ákveðinn samanburður á t.d. Uber-leigabílaþjónustunni og Airbnb. Við þekkjum orðið nokkuð vel þetta heimagistingar-/Airbnb-umhverfi. Á síðasta ári, fyrir réttu ári síðan, setti Alþingi löggjöf til að reyna að ná utan um þá starfsemi, vegna þess að það er nauðsynlegt að hafa eitthvert taumhald á þessu, hafa einhverja yfirsýn yfir það hvaða starfsemi er í gangi og tryggja m.a. réttindi þeirra sem velja að gista á svona stöðum.

Eitt af því sem við lögðum þar til eða var sett í lög var að þeir sem ætla að stunda þessa starfsemi verða að sækja um leyfi. Það er tiltölulega einfalt. Þeir verða síðan með allri markaðssetningu á vöru sinni, á gistirými sínu, að birta leyfisnúmerið í auglýsingum á Airbnb. Það hefur ekki gengið eftir, það átti að taka gildi um síðustu áramót. Þá var sagt: Ja, Airbnb bannar að leyfisnúmerin séu birt, þeir neita að birta þessi leyfisnúmer í auglýsingum sínum. Þá er mitt mat að þeim sem stunda slíka starfsemi sé bannað að auglýsa á Airbnb. Þetta er dæmi um það hvernig við þurfum að reyna að ná utan um þetta og hvernig það spilar allt saman saman. Við reyndum virkilega og lögðum okkur fram við það á síðasta þingi (Forseti hringir.) að reyna að ná utan um þetta, vorum mjög jákvæð gagnvart þessari þróun markaðarins, en það hefur ekki gengið betur eftir en raun ber vitni.