146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu og góðu umræðu og taka undir með þeim þingmönnum sem hafa minnst á flutning á búfé, hann hefur óneitanlega aukist. Það er mikill og langur akstur víða um land með sláturfé, sem ekki getur talist jákvætt, sláturhúsunum hefur fækkað. En menn eru fullir af hugmyndum og krafti í sveitum landsins. Margir eru að reyna að koma sér upp meiri vinnslu heima. Ég get samt ekki alveg tekið undir með ráðherra að það væri möguleiki að bjóða upp á meira áfengi t.d., landi með lærinu er svo sem alveg þekkt á sumum bæjum en ég ætla ekki að mæla því bót.

Regluverkið er allt of flókið. Þetta er allt of snúið fyrir fólk að fara út í. Við þekkjum gæðavöruna sem við höfum í boði um allt land og við þurfum að gera gangskör að því að einfalda þetta allt saman og hjálpa fólki til meiri framleiðslu heima.