146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:27]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Landi með lærinu, mér hafði ekki dottið það í hug en það er áhugavert.

Mig langar að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er afskaplega góð. Rauði þráðurinn, sem við erum öll sammála um, er fyrst og fremst matvælaöryggi og hreinleiki og gæði þeirrar framleiðslu sem við erum með hér á landi. Við erum nú þegar með mjög flott bú, ég nefni sem dæmi Friðheima og Erpsstaði og fleiri bú, sem eru að gera mjög flotta hluti með matvælaþróun og markaðssetningu. Tækifærin eru til staðar.

Mér finnst gott að ráðherra nefnir það að við ættum frekar að draga úr íþyngjandi reglum, horfa meira opið á þetta. Það er mjög gott, ég er ánægð að heyra það, en náttúrlega að því að gefnu að eftirlitið sé mjög gott eins og málshefjandi nefndi í ræðu sinni.

Mig langar til að heyra frá ráðherra á eftir varðandi það sem málshefjandi nefndi um færanlegu sláturhúsin, hvort eitthvað sé komið áleiðis í þeirri stefnumótun í ráðuneytinu, vegna þess að þar eru klárlega tækifæri.