146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál sé komið til umræðu. Ég verð að taka undir það, ég held að við þurfum að huga að gæðunum. Þau og öryggið eru alltaf það sem þarf að vera á oddinum. Beint frá býli hefur náð að ramma sig inn í eitthvert tiltekið regluverk og hefur gengið mjög vel. Það hefur aukist mjög um land allt að bændur selji beint frá býli undir því regluverki. En auðvitað þarf að auðvelda það til þess að hægt sé að efla þróunina og styrkja bændur í sessi. Hægt er að taka undir varðandi hinn langa og mikla flutning á dýrum sem tíðkast mjög víða um land, því miður. En við þurfum líka að huga að eftirlitinu. Það yrði væntanlega í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Við erum sífellt að færa verkefni þangað án þess að færa með því fjármuni, en þá þarf a.m.k. að hafa í hug að það sé gert. Fyrst og fremst snýr þetta að því að styrkja og styðja við bændur. Það getur hæstv. ráðherra gert með góðum búvörusamningi og með því að létta á regluverkinu.