146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda um að það er ánægjulegt að finna þennan samhljóm á Alþingi varðandi það að ýta undir aukið frelsi og tækifæri bænda, hvort sem er til heimaslátrunar eða annarra afurða. Menn höfðu það í flimtingum að selja landa með lambinu, en það vill og svo til að Norðmenn, sem eru kannski mestu púrítanarnir í áfengismálum, fóru þá leið til að ýta undir framleiðsluna á Hardanger-eplunum, sem allir þekkja náttúrlega sem þekkja eitthvað til Noregs. Það er afbragðsvín sem þar er framleitt, 10–12%, sem hefur gert bændum kleift á síðastliðnum árum með nýjum lögum að auka afurðir frá býli. Það hefur leitt til þess að sala annarra afurða frá býlinu hefur aukist. Ég get vel séð fyrir mér t.d. krækiberja- og bláberjavínbændur koma hér fram. Við eigum að vera frekar opin fyrir alls konar tækifærum sem geta falist í íslenskri framleiðslu.

Ég vil líka taka undir það, þrátt fyrir að ég hafi ekki verið mesti aðdáandi búvörusamningsins, að það eru engu að síður ákveðin tækifæri við búvörusamninginn og þá skulum við nýta okkur þau. Það eru ýmis tækifæri falin í búvörusamningnum, m.a. til þess að ýta undir nýsköpun hvers konar á sviði sauðfjárræktar, mjólkurframleiðslu, garðyrkju o.s.frv. Ég bind vonir við að endurskoðunarnefndin skoði það mjög gaumgæfilega.

Ég vil líka benda á að við erum með sérstakt verkefni sem ýtt var úr vör, sem heitir Matarauður Íslands. Því verkefni er ætlað að efla almenna vitund um íslenska matarmenningu, íslensk matvæli og ýta undir hvers kyns nýsköpun í framleiðslu og markaðssetningu matvæla. Verkefnið er til fimm ára og fara heilmiklir fjármunir í það. Ég sé sérstaklega fyrir mér að áhugafólk um heimaslátrun og sölu beint frá býli geti með einum eða öðrum hætti nýtt sér og verið þátttakendur í því starfi á næstu árum. Ég held að mikilvægt sé að menn nýti sér þau tækifæri. Ég vil undirstrika að stjórnvöld eiga ekki að standa í vegi fyrir þróun. Við eigum að gæta að (Forseti hringir.) fyrirvörum varðandi matvælaöryggið, rekjanleika og ábyrgð framleiðanda. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur á þessu kjörtímabili til þess að ýta undir tækifæri bænda til nýsköpunar.