146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

löggjöf gegn umsáturseinelti.

462. mál
[11:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Á 145. löggjafarþingi var fjallað um breytingu á almennum hegningarlögum með síðari breytingum, m.a. samninga Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Í nefndaráliti með breytingartillögu sem allir nefndarmenn stóðu að við afgreiðslu málsins 8. mars 2016 var sérstaklega rætt að ástæða væri til þess að fjalla um svokallað umsáturseinelti, en í nefndarálitinu kom fram að slík endurskoðun stæði yfir í dómsmálaráðuneytinu, þá innanríkisráðuneytinu.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvað líði undirbúningi þess að setja í íslenska refsilöggjöf sérstakt ákvæði um það sem kallað er umsáturseinelti, samanber umrætt nefndarálit þar sem kemur fram að ætlunin sé að hefja slíkan undirbúning.