146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

löggjöf gegn umsáturseinelti.

462. mál
[11:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki lýst starfi refsiréttarnefndar og hvernig hún hefur fjallað um málið en ég geng út frá því að hún geri það faglega. Þessi mál þarf að skoða mjög vandlega. Það er full ástæða til að gera það telji menn að pottur sé brotinn eða að einhverjir missi af réttarvernd út af skorti á sérstöku ákvæði um umsáturseinelti. Það er ágæt ábending sem kom fram hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, að skilgreina þurfi mjög vel hvað umsáturseinelti sé. Það geta verið fleiri en einn sem taka þátt í umsáturseinelti, ég get ekki ímyndað mér að það sé loku fyrir það skotið. En refsiréttarnefndin mun skoða þetta mjög vandlega með tilliti til t.d. dóma sem fallið hafa um þessi mál og leita sjónarmiða frá lögreglu og öðrum sem best þekkja til slíkra mála. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um það hvort ástæða sé til þess að leggja fram frumvarp um það. Þá ákvörðun tekur enginn nema ráðherra ef hann ætlar að leggja fram frumvarpið, en auðvitað er öllum öðrum frjálst sem sitja í þingsal að leggja fram frumvörp um hvað eina.