146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

málefni Hugarafls.

491. mál
[11:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Samtökin Hugarafl hafa markað sér mikla sérstöðu á Íslandi, en því miður hefur það verið svo að fjárveitingar til starfseminnar hafa verið lækkaðar verulega á fjárlögum yfirstandandi árs og er fyrirspurn mín komin til af því tilefni.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra í fyrsta lagi hvort farið hafi fram mat eða úttekt á starfsemi samtakanna Hugarafls áður en þessar fjárveitingar voru lækkaðar svo mikið sem raun varð í fjárlögum fyrir árið 2017. Í öðru lagi spyr ég: Hverjar eru meginforsendur þess að þessar fjárveitingar voru lækkaðar svo mjög? Í þriðja lagi spyr ég hvort ráðherra hafi rætt málefni Hugarafls við forráðamenn samtakanna eða hyggist gera það og ef svo er ekki, þá hvers vegna. Í fjórða lagi spyr ég ráðherra hvert hann telji að hlutverk samtaka á borð við Hugarafl sé eða eigi að vera. Hver telur ráðherra að afstaða hins opinbera til slíkra samtala eigi að vera? Hvernig telur hann að hún eigi að birtast? Hér er sem sagt í meginatriðum spurt um það með hvaða hætti formlegum samskiptum ætti að vera fyrir komið milli samtaka af þessu tagi og ráðuneytis og ráðherra hverju sinni. Það í fyrsta lagi, og svo hins vegar þær spurningar sem lúta að stöðugleika í fjármögnun samtakanna.