146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

málefni Hugarafls.

491. mál
[11:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, það er nefnilega afar mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að við styðjum við frjáls félagasamtök sem sinna þeim mörgu og ósýnilegu verkum sem skila okkur svo sannarlega til baka hæfari einstaklingum en ella. Ég held að þessi samtök, eins og fleiri, eins og hæstv. ráðherra nefndi, séu á margan hátt ódýrari þegar upp er staðið. Við vitum að þeim hefur fjölgað sem fara á örorku, það á í mörgum tilfellum rætur sínar að rekja til geðheilbrigðisvandamála. Ég skora á ráðherra að undirrita þjónustusamninga, hvort sem er við Hugarafl eða aðra aðila sem sinna þessari geðræktarvinnu sem er svo mikilvæg. Það er ódýrara þegar upp er staðið. Það eru meiri líkur á að við getum hjálpað fólki aftur út í lífið, að það sinni vinnu sem það er annars kannski ófært um sökum þess að það þarf að bíða svo lengi (Forseti hringir.) eftir þjónustu eða hefur hreinlega ekki efni á að sækja sér þjónustu geðlækna.