146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttisstofu.

545. mál
[12:07]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Því er til að svara varðandi spurninguna um endurskoðun á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynja eða kvenna og karla og þá möguleg viðbrögð eða viðurlög með úrskurðum kærunefndar að við erum með þau áform innan ráðuneytisins að taka lögin í heild til endurskoðunar í haust. Núgildandi jafnréttislögum hefur verið breytt nokkrum sinnum frá setningu hvað varðar einstök atriði, en nú er kominn tími á heildarendurskoðun enda liðin tæplega tíu ár frá setningu laganna. Alþingi samþykkti í september 2016 tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 og eitt þeirra brýnu verkefna sem framkvæmdaáætlun kveður á um er einmitt að úttekt skuli gerð á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála.

Við munum skipa starfshóp sérfræðinga sem stýra mun úttekt á þróun, úttekt og eftirfylgni íslenskrar jafnréttislöggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála almennt. Meðal þess sem kannað verður er hvort markmið gildandi laga og stjórnsýsla jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi. Starfshópurinn skal skila skýrslu til ráðherra um niðurstöðu sínar og leggja fram tillögur um úrbætur. Áætlanir standa til að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. desember. Kostnaðaráætlunin er 4 millj. kr. Velferðarráðuneytið er ábyrgðaraðili þessa verkefnis.

Það er því ljóst og vilji minn stendur til að strax í haust verði ráðist í heildarendurskoðun laganna og endurskoðun á stjórnsýslu málaflokksins. Skipan starfshóps liggur ekki enn fyrir, en gert er ráð fyrir að hann verði skipaður m.a. af sérfræðingum frá Jafnréttisstofu, velferðarráðuneyti og dómsmálaráðuneyti og að sérstakt samráð verði haft við fulltrúa frá m.a. kvennahreyfingunni og samtökum sem láta sig jafnréttindi og mannréttindi varða, kærunefnd jafnréttismála, samtökum aðila á vinnumarkaði og fleiri.

Verkefni kærunefndar er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þessara laga hafi verið brotin. Niðurstöðu kærunefnda sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds. Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal nefndin leita umsagnar frá heildarsamtökum launafólks og atvinnurekenda áður en úrskurður er kveðinn upp. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. jafnréttislaga fela úrskurðir kærunefndar jafnréttismála í sér bindandi niðurstöðu fyrir málsaðila um hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Úrskurðarorð nefndarinnar hafa hins vegar eingöngu falið í sér niðurstöðu um það hvort ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin eður ei, enda er það skilgreint hlutverk nefndarinnar að lögum. Dómstólar eiga síðan almennt úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana, samanber meginreglu 60. gr. stjórnarskrár Íslands, og verður því að ætla að dómstólar hafi heimild, að uppfylltum ákveðnum réttarfarsskilyrðum, til að skera úr ágreiningi um hvort kærunefnd jafnréttismála hafi byggt úrskurð á ákvæðum laga sem og málefnalegum sjónarmiðum.

Reynsla síðustu tíu ára af núgildandi jafnréttislögum hefur leitt í ljós að einstaka ákvæði þeirra þarfnast sérstakrar athugunar. Verður sérstök áhersla lögð á þau í endurskoðunarvinnunni sem fram undan er. Meðal þeirra ákvæða eru greinar sem lúta að kærunefnd jafnréttismála. Með jafnréttislögum frá 2008 urðu úrskurðir nefndarinnar sem fyrr segir bindandi fyrir málsaðila í stað álita áður og var með þeirri tilhögun leitast við að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi en áður hafði verið gert og framkvæmd þessara mála færð nær því sem tíðkast hjá öðrum norrænum ríkjum.

Nú er komið að því að skoða hvort ganga skuli lengra og kanna hvort ástæða sé til að skilgreina viðbrögð eða viðurlög við úrskurðum kærunefnda jafnréttismála. Það er eitt af verkefnum starfshópsins sem mun koma að þessari endurskoðun að kynna sér betur með hvaða hætti önnur Norðurlönd hafa háttað þessum málum. Þar hafa ýmsar leiðir verið farnar, m.a. hafa kærunefndir haft vald til að leggja á dagsektir til þess að knýja á um að farið sé að úrskurði þeirra. Sumar kærunefndir geta jafnvel ákvarðað rétt til bóta í ákveðnum tilfellum svo sem ef niðurstaða hefur lotið að því að um óréttmæta uppsögn hafi verið að ræða og geta ógilt uppsagnir nema talið sé óraunhæft að viðhalda ráðningarsambandinu.

Þetta er auðvitað snúið viðfangsefni þar sem oft á tíðum getur verið erfitt að snúa við ákvörðun sem kærunefnd úrskurðar ólögmæta eða ómálefnalega með þessum hætti, en þá þarf að huga að því hvaða önnur úrræði geti verið um að ræða.

Í þriðja lagi er spurt: Telur ráðherra ástæðu til að efla starfsemi Jafnréttisstofu? Því er skemmst til að svara að það verður auðvitað (Forseti hringir.) eitt af viðfangsefnum endurskoðunar laganna hvort Jafnréttisstofa geti sinnt (Forseti hringir.) sínum lögbundnu verkefnum eða hvort efla þurfi hana enn frekar.